Hjörtur Lárusson (1874-1960)

Hjörtur Lárusson

Hjörtur Lárusson (Harrý Lárusson) var með fyrstu Íslendingum sem hafði tónlist að aðalstarfi en hann var kennari, tónlistarmaður, kóra- og lúðrasveitastjórnandi auk þess að vera tónskáld – hann var þó iðulega titlaður hljómfræðingur eins og þá var títt. Hann var alla sína starfsævi búsettur í Kanada og Bandaríkjunum.

Hjörtur Lárusson fæddist í Borgarfirðinum haustið 1874 og bjó í Ferjukoti fyrstu æviár sín. Hann fluttist með fjölskyldu sinni vestur til Kanada um sextán ára aldur og átti eftir að búa vestra það sem eftir var ævinnar og líklega kom hann aldrei aftur til Íslands. Hann hlaut ungur tilsögn í orgelleik og lúðrablæstri en ekki liggur fyrir hvort sú tilsögn var formleg, hann var búsettur í Winnipeg og hóf hann fljótlega að leika með lúðrabandinu Evans concert band en tveir aðrir Íslendingar léku með þeirri sveit. Hjörtur var síðan einn af stofnendum íslensku hljómsveitarinnar The Jubilee band og stjórnaði þeirri sveit frá stofnun 1897 en raddsetti einnig fyrir sveitina og mun jafnframt hafa sungið með söngkvartett sem starfaði í tengslum við sveitina. Þá er hann einnig sagður hafa starfað með með hljómsveit sem kallaðist I.A.C. orchestra – sú sveit lék að minnsta kosti einhverju sinni lög eftir Hjört en hann var þá byrjaður að semja tónlist, mestmegnis hljómsveitaverk en einnig mun hann hafa samið sönglög.

Um aldamótin fluttist Hjörtur (sem þarna hafði að einhverju leyti að minnsta kosti tekið upp nafnið Harrý Lárusson) frá Winnipeg til Minneapolis í Bandaríkjunum og þar átti hann eftir að búa og starfa það sem eftir var. Hann helgaði sig þar alveg tónlistinni, byrjaði að kenna við MacPail School of music og starfaði þar út starfsævina en einnig hóf hann að leika sem trompetleikari með Minneapolis symphony orchestra sem hann starfaði með í tíu ár og fór víða um Bandaríkin og Kanada við tónleikahald. Hjörtur stjórnaði í Minneapolis nokkrum lúðrasveitum s.s. Shrine band, Zion Commandery band, Oddfellows band, Streetcar employees o.fl. Auk þess stjórnaði hann íslenskum kvennakór í Minneapolis um nokkurra ára skeið. Hjörtur fékkst heilmikið við útsetningar fyrir hljómsveitir og stjórnaði einnig minni hljómsveitum og kórum við samkomur Íslendinga bæði í Minneapolis og áður í Winnipeg. Á efri árum fékkst hann við hljóðfærastillingar.

Hjörtur lést haustið 1960, áttatíu og sex ára að aldri.