Haukur Heiðar Ingólfsson (1942-)

Haukur Heiðar Ingólfsson

Haukur Heiðar Ingólfsson læknir er líklega einn þekktasti dinner píanóleikari landsins en hann er jafnframt þekktur fyrir samstarf sitt við Ómar Ragnarsson, hann hefur gefið út nokkrar plötur með píanótónlist.

Haukur Heiðar Ingólfsson kemur upphaflega að norðan en hann er fæddur (1942) og uppalinn á Akureyri, þar komst hann fyrst í tæri við tónlistina og hóf að leika mjög ungur á orgel eftir eyranu og síðan á píanó en hann naut lítillar sem engrar leiðsagnar í þeim efnum. Hann byrjaði um sextán ára aldur að koma fram opinberlega og var um tvítugt kominn með eigin hljómsveit sem bar H.H. kvintett (H.H. kvartett) sem lék víðs vegar um norðanvert landið auk þess sem sveitin var húshljómsveit á Hótel KEA um hríð. Hann var aukinheldur ágætur söngmaður og söng í Djúpárdrengjunum svokallaða, söngkvartett sem starfaði innan Menntaskólans á Akureyri.

Haukur Heiðar bjó ennþá fyrir norðan þegar hann kynntist Ómari Ragnarssyni en hann lék undir hjá skemmtikraftinum á skemmtunum fyrir norðan en Ómar var þá þegar orðinn landsþekktur. Samstarf þeirra félaga hófst svo fyrir alvöru þegar Haukur fluttist suður að loknu stúdentsprófi til að fara í læknanám en þeir áttu eftir að starfa lengi saman, fyrst á sjöunda áratugnum og fram á þann sjöunda en Haukur lék þá m.a. undir á plötu Ómars – Gamanvísur og annað skemmtiefni hljóðritað að viðstöddum áheyrendum, sem kom út árið 1966 en samstarf þeirra náði líka til jólatrésskemmtana þar sem Haukur lék stundum á harmonikku og söng ásamt Gáttaþefi (Ómari). Þegar Haukur fór til framhaldsnáms í Svíþjóð árið 1974 varð eðlilega hlé á samstarfi þeirra en það hófst á nýjan leik haustið 1982 og áttu þeir þá eftir að starfa lengi saman eftir það og átti Haukur eftir að koma lítillega við sögu á að minnsta kosti tveimur öðrum plötum Ómars. Auk þess lék Haukur undir hjá ýmsum skemmtikröftum og söngfólki á skemmtunum víðs vegar um land og höfuðborgarsvæðinu, m.a. í Þórscafe, Hótel Sögu og Broadway en á síðast talda staðnum var hann dinner píanóleikari í fjöldamörg ár.

Árið 1984 kom fyrsta píanó plata Hauks Heiðars út en þær hafa komið nokkrar slíkar og í nafni Hauks Heiðars og félaga, flestar þessara platna hafa komið út í samstarfi við Björgvin Halldórson og Árna Scheving en fleiri tónlistarmenn hafa komið þar við sögu og jafnframt nokkrir söngvarar, þar má nefna auk Björgvins þau Ómar Ragnarsson, Matthías Matthíasson, Egil Ólafsson og svo börn Hauks, þau Margrét og Haukur Heiðar yngri (söngvara Diktu).

Haukur Heiðar og Ómar Ragnarsson

Fyrsta platan kom út sem fyrr segir 1984, hún bar heitið Með suðrænum blæ og hafði að geyma þekkt lög úr ýmsum áttum eins og allar síðari plötur Hauks, af þeirri plötu varð lagið Sucu Sucu sungið af Ómari Ragnarssyni nokkuð vinsælt og hlaut platan ágæta dóma í Þjóðviljanum og Morgunblaðinu. Næsta plata kom út 1995 undir nafninu Suðrænar perlur og hlaut hún sömuleiðis ágæta dóma í Morgunblaðinu og Degi og þokkalega í DV, og sú þriðja – Á ljúfum nótum árið 1999 og fékk hún eins og hinar fyrri ágæta dóma í Morgunblaðinu og DV. Mánaskin kom út 2001 og Glitra gullin ský árið 2004 og fengu þær báðar prýðilega dóma í Morgunblaðinu en átta ár liðu þar til sú næsta – Á rómantískum nótum kom út en það ár (2012) fagnaði Haukur Heiðar sjötugs afmæli sínu. Árið 2017 kom út tvöföld safnplata – Bestu lögin með Hauki Heiðar og félögum en hún hafði að geyma fjörutíu og fjögur lög af fyrri plötum.

Einnig hefur komið út plata með Fjörkálfunum svokölluðu en þeir voru hópur nokkurra skemmtikrafta sem fóru um landið með dagskrá sína sumarið 1994, sú plata bar heitið Fjörkálfar á ferð um landið á ári fjölskyldunnar. Þá hafa nokkur lög af plötum Hauks Heiðars komið út á safnplötum.

Efni á plötum