Heinz Edelstein (1902-59)

Heinz Edelstein

Nafn dr. Heinz Edelstein er oft nefnt í sömu andrá og Robert Abraham (Róbert A. Ottósson) og Victor Urbancic en þeir þrír áttu það sameiginlegt að flýja gyðingaofsóknir nasista til Íslands á árunum fyrir heimsstyrjöldina síðar, og rífa hér upp tónlistarlífið hver með sínum hætti. Heinz Edelstein var e.t.v. minnst áberandi þremenninganna en starf hans var þó ómetanlegt því hann lagði grunninn að tónlistarkennslu fyrir börn á Íslandi.

Heinz Theodor Edelstein sem var sellóleikari af gyðingaættum fæddist sumarið 1902 í Bonn í Þýskalandi og lærði tónfræði, sellóleik og heimspeki áður en hann varð doktor í tónvísindum. Hann starfaði víðs vegar um Þýskaland sem sellóleikari og kennari, lék oft einleik með bæði smærri og stærri hljómsveitum ytra en þegar nasistar hófu að ofsækja gyðinga var hvergi vinnu fyrir hann að fá og svo fór að hann kom hingað til lands síðla árs 1937 á vegum Tónlistarfélagsins í Reykjavík sem var undir stjórn Ragnars í Smára, og hóf að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík. Honum leist ekki betur á myrkrið og kuldann hér á Íslandi en svo að hann fór aftur til Þýskalands sumarið eftir en þá höfðu aðstæður enn versnað þar svo hann settist að hér á landi og fjölskylda hans fylgdi í kjölfarið.

Hér varð Heinz strax mikilvirkur sellóleikari og tónlistarkennari, hóf að leika með Hljómsveit Reykjavíkur, strengjasveit Ríkisútvarpsins og hljómsveit Tónlistarfélagsins í Reykjavík en allt voru þetta fyrirrennarar Symfóníuhljómsveitar Reykjavíkur sem síðar varð að Sinfóníuhljómsveit Íslands en hann var þar alls staðar leiðandi sellóleikari. Hann starfaði einnig með Tríói Tónlistarskólans í Reykjavík í um tíu ár en sú sveit lék víða á höfuðborgarsvæðinu og í útvarpinu og var mikilvægur liður í að kynna Íslendingum kammertónlist.

Heinz við tónlistarkennslu barna

Eftir nokkurra ára dvöl hérlendis hafði hann stofnað barnadeild innan tónlistarskólans en hann hafði á takteinum ýmsar nýjungar með sér frá Þýskalandi sem miðuðu að því að auka tónlistaruppeldi barna en fram að því höfðu menn ekki farið í tónlistarnám hér á landi nema til að gera það að ævistarfi sínu. Hugmyndir hans slógu í gegn og ásóknin varð miklu meiri en menn ætluðu, því fór svo að hann fékk leyfi til að stofna eigin tónlistarskóla, Barnamúsíkskólann sem tók til starfa 1952 og hann veitti sjálfur forstöðu en nemendur urðu þar strax um hundrað talsins. Heinz var reyndar ekki við stjórnvölinn þar nema í um sex árs vegna heilsubrests en hann átti við hjartavandamál að stríða og hætti af þeim sökum árið 1956. Hann var hvattur til að flytja í mildara loftslag og því flutti hann til Þýskaland þar sem hann hóf að kenna en lést þar í landi haustið 1959.

Starf Heinz bar þó þann árangur að hér á landi myndaðist hefð fyrir tónlistarskólanámi fyrir börn sem má segja að við Íslendingar njótum enn góðs af enda var stórt skref tekið með stofnun skólans. Barnamúsíkskólinn er enn starfaði, hann hlaut nýtt nafn árið 1977 og heitir nú Tónmenntaskóli Reykjavíkur en sonur Heinz, Stefán Edelstein stýrði skólanum í marga áratugi. Meðal þeirra sem Heinz Edelstein kenndi á barnsaldri má nefna Gunnar Kvaran, Jón Pál Bjarnason, Atla Heimi Sveinsson, Halldór Haraldsson og Gunnar Björnsson svo fáein nöfn séu nefnd.