Helga Bjarnadóttir (1895-1980)

Helga Bjarnadóttir Maul

Helga Bjarnadóttir var ein þeirra söngkvenna sem virtist ætla að ná langt á sínu sviði og var af sumum talin ein mesta vonarstjarna í íslensku tónlistarlífi þess tíma, aðstæður leiddu þó til að smám saman hætti hún öllum söng og hvarf af sjónarsviðinu.

Helga Bjarnadóttir Maul fæddist á Húsavík árið 1895 og er gaman að geta þess að hún var tvíburi, en tveir dagar voru þó á milli þeirra – eldri systirin (sem lést reyndar tveggja ára gömul) fæddist þann 31. ágúst en Helga 2. september og reyndar var það fyrir mikla mildi að hún skyldi lifa því þýskur fæðingalæknir var fyrir tilviljun staddur um boð í skipi við höfnina þann daginn og gat bjargað lífi þeirra mæðgna.

Helga þótti strax á barnsárum sínum efnileg söngkona, hún var t.a.m. fengin til að syngja á kvenfélagsfundum í barnaskólanum á Húsavík um fjögurra ára aldur og þurfti þá að standa uppi á stól svo hún sæist. Hún var því snemma hvött til að læra söng sem og hún gerði, fyrst líklega fyrir tvítugt þegar hún réði sig í vist inni í Hrafnagili í Eyjafirði og nam þar söng hjá Valgerði Lárusdóttur Briem prestsfrú sem var mikill frumkvöðull í söngmálum á Íslandi, ein allra fyrst kvenna (ef ekki sú fyrsta) til að nema og kenna söng. Helga hélt nokkra tónleika norðan- og austanlands, s.s. á Húsavík en einnig á Vopnafirði, Siglufirði, Akureyri og Seyðisfirði og á einhverjum þeirra ásamt Lizzie Þórarinsson, slíkir tónleikar voru mikir viðburðir á þeim tíma enda var einsöngmenntin og hvað þá tónleikar tengdir því enn á frumstigi hér á landi.

Helga Bjarnadóttir

Leið Helgu lá næst suður til Reykjavíkur þar sem hún nam áfram söng en nú hjá Herdísi Matthíasdóttur (Jochumssonar) söngkennara og lagði hún þá einnig stund á orgelleik hjá Páli Ísólfssyni en hún hafði einnig lært lítillega á orgel fyrir norðan. Þaðan fór hún til Danmerkur árið 1919 til að læra söng og var þar mikinn hluta þriðja áratugarins, hún var þó ekki samfellt í söngnámi enda leyfðu efni og aðstæður það ekki alltaf. Hún kom heim til Íslands árið 1922 og 1927 og hélt þá tónleika hér á landi, hún þótti afar efnileg og hafði alla burði til að verða þekkt söngkona en hlaut ekki mikinn stuðning hér heima og e.t.v. allra síst hjá sinni nánustu fjölskyldu enda þótti söngnám lítt praktískt og hvað þá hjá konu. Helga var þá orðin gift dönskum manni og hafði tekið upp ættarnafnið Maul.

Lítið er vitað um söngferil Helgu í Danmörku en hann var þó stuttur eftir því sem best verður komist enda var þá komin heimskreppa og fátækt mikil svo erfitt var að framfleyta sér með söng – þó virðist sem hún hafi eitthvað sungið á tónleikum þar á þriðja og fjórða áratugnum. Hún hafði eignast son árið 1923 og þegar hún kom heim til Íslands árið 1931 í stutta heimsókn varð hann eftir heima á Íslandi hjá systur Helgu en hann hitti Helga ekki aftur fyrr en eftir seinna stríð. Eiginmaður hennar lést undir lok stríðs og þá var hún að öllum líkindum alveg hægt að syngja. Hún flutti síðar aftur heim til Íslands, vann lengi við verslunarstörf og bjó hér til æviloka en hún lést sumarið 1980.