Hávarður Tryggvason (1961-)

Hávarður Tryggvason

Hávarður Tryggvason hefur skipað sér meðal fremstu kontrabassaleikara landsins en hann hefur starfað sem leiðandi bassaleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og starfað með ógrynni strengja- og kammersveita í gegnum tíðina.

Hávarður fæddist í Reykjavík árið 1961 og hefur verið viðloðandi tónlist frá barnæsku, hann nam bassaleik fyrst í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðan í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hann var í strengjasveit tónlistarskólans sem m.a. gerði það gott í keppni ungra strengjasveita í Júgóslavíu árið 1982 og vakti mikla athygli.

Á yngri árum sínum lék Hávarður með danshljómsveitum eins og Monaco og Demo sem léku á skemmtistöðum borgarinnar en þegar hann fór erlendis í tónlistarnám hætti hann þess konar ballspilamennsku og sneri sér alfarið að kontrabassanum. Hann nam fyrst í París í Frakklandi og lék þá samhliða námi sínu í atvinnumannahljómsveit innan tónlistarskólans en síðar fór hann yfir til Belgíu í framhaldsnám og starfaði þar í landi í nokkur ár eftir nám, lék þar með Sinfóníuhljómsveit flæmsku óperunnar í Antwerp. Hann kom þó reglulega heim til Íslands í fríum frá námi sínu og kom þá gjarnan fram á tónleikum víða um land hér heima bæði sem einleikari og í smærri kammersveitum.

Árið 1989 fluttist Hávarður aftur heim til Íslands eftir nokkurra ára búsetu í Frakklandi og Belgíu en honum hafði þá boðist staða leiðandi kontrabassaleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hann gegndi til margra ára eftir það. Með sinfóníuhljómsveitinni átti hann eftir að leika á ótal tónleikum hér heima og erlendis og margsinnis sem einleikari með sveitinni – þá hefur hann jafnframt leikið inn á fjölda platna með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hávarður Tryggvason

Hávarður hefur samhliða störfum sínum með sinfóníuhljómsveitinni starfað með fjölda kammer- og strengjasveita af ýmsu tagi, hér má nefna Fransk-íslenska kvartettinn, Camerata nova, Caput-hópinn, Camerarctica, Kammermúsíkklúbbinn, Salonhljómsveit Sigurðar I. Snorrasonar, Salon Islandus, KaSa-hópinn, oktettinn Otto, Veislutríóið, kammerhópnum Okkur til gleði og guði til dýrðar, OCTO, Fífilbrekkuhópinn og þannig mætti áfram lengi telja. Hann hefur að sjálfsögðu margoft komið fram sem einleikari með mörgum af þeim sveitum enda hafa fjölmörg tónverk verið samin fyrir hann og með einleik hans í huga, hann hefur jafnframt komið fram á plötum með mörgum þeirra. Þá eru ótalinn fjöldi tónlistarhátíða og tónleikaraða þar sem Hávarður hefur komið við sögu en hér má nefna Sumartónleika í Skálholtskirkju, Músík í Mývatnssveit, Reykjavik midsummer music 2016, Reykholtshátíðina, Myrka músíkdaga og Poulenc hátíðina svo aðeins nokkrar séu upp taldar, og svo má einnig nefna að hann hefur lítillega leikið á leikhússviði s.s. í S.O.S. kabarettnum og í Öxinni og jörðinni.

Auk þess að leika á plötum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og mörgum af ofangreindum kammer- og strengjasveitum hefur Hávarður leikið inn á nokkurn fjölda annarra platna með tónlistarfólki af ýmsu tagi, hér má nefna plötur með lögum Sigurðar Þórarinssonar og með Maíkórnum, Daníel Ágústi Haraldssyni, Gretu Salome Stefánsdóttur, Megasi og Páli Óskars & Moniku Abendroth en einnig hefur hann verið í stærri hlutverkum á t.d. plötum með tónverkum eftir Hauk Tómasson og Atla Heimi Sveinsson.

Hávarður starfar enn með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hinum ýmsu kammersveitum og er því í fullu fjöri, hann hefur samhliða því einnig starfað við tónlistarkennslu í Tónlistarskólanum í Reykjavík og víðar.

Efni á plötum