
Músíktilraunir 2024
Það styttist í Músíktilraunir 2024. Þær voru lengi kenndar við Tónabæ en fara nú fram í Norðurljósum í Hörpu dagana 10.-16. mars nk. þar sem keppnin hefur verið haldin síðustu árin.
Opnað verður fyrir skráningu í Músíktilraunir á heimasíðu keppninnar þann 5. febrúar og þar verður hægt að skrá sig til og með 19. febrúar, hver hljómsveit/tónlistarmaður þarf að skila inn tveimur hljóðdæmum (demó) og mynd. Glæsilegir vinningar verða í boði og góð skemmtun.
Fyrirkomulag keppninnar verður með þeim hætti að fjögur undankvöld verða haldin 10.-13. mars í Norðurljósasal Hörpu og svo verður úrslitakvöldið þann 16. mars á sama stað. Ungmenni á aldrinum 13 til 25 ára geta sótt um þátttöku en 40-50 tónlistaratriði keppa að því takmarki að komast á lokakvöldið þar sem um 10-12 hljómsveitir keppa til úrslita. Úrslitakvöldinu verður útvarpað í beinni útsendingu á Rás 2 og auk þess streymir Ríkisútvarpið frá úrslitunum og vinnur sjónvarpsþátt upp úr efninu sem sýndur verður síðar. Hitt húsið heldur utan um keppnina.

Fókus – sigurvegarar Músíktilrauna 2023
Hljómsveitin Fókus frá Höfn í Hornafirði sigraði Músíktilraunirnar í fyrravor en sveitin hafði verið stofnuð haustið 2022 og var skipuð þeim Amylee Tindade gítarleikara og söngvara, Alexöndru Hernandez bassaleikara og söngvara, Önnu Láru Grétarsdóttur píanóleikara, Arnbjörgu Ýr Sigurðardóttur trommuleikara og Piu Wrede hljóðgervlaleikara.
Fókus hefur farið víða síðustu mánuðina, m.a. á tónlistarhátíðina Westerpop í Hollandi síðasta sumar og Iceland Airwaves hér heima í haust en einnig leikið á hátíðum eins og Upprásinni, Ormsteiti og Aldrei fór ég suður, sem sýnir að ýmsir möguleikar opnast þeim sem sigra Músíktilraunir.
Fjölmargar þekktar hljómsveitir hafa sigrað Músíktilraunir í gegnum tíðina og hér má af handahófi nefna sveitir eins og Maus, Botnleðju, Blóðmör, Agent fresco, Of monster and men, Mammút, XXX Rottweiler hunda, Greifana og Kolrössu krókríðandi.














































