Helga Sigþórsdóttir (1943-)

Helga Sigþórsdóttir

Söngkonan Helga Sigþórsdóttir var töluvert áberandi í íslensku tónlistarsenunni á sjöunda og framan af áttunda áratug liðinnar aldar, hún söng þó aldrei inn á útgefnar plötur.

Helga Sigþórsdóttir er fædd (1943) og uppalin á Einarsnesi í Borgarfirði og stundaði nám við Héraðsskólann í Reykholti þar sem hún mun hafa sungið með skólahljómsveitinni í upphafi sjöunda áratugarins. Þegar hún fór til Reykjavíkur árið 1963 í nám í hárskeraiðn hóf hún að syngja með Hljómsveit Einars Loga Einarssonar til að drýgja tekjurnar en sveitin hafði þá auglýst eftir söngkonu til að syngja með sveitinni á Keflavíkurflugvelli þar sem hún starfaði að mestu leyti, áður hafði Helga reyndar lítillega komið fram með KK-sextettnum en ungir og efnilegir söngvarar fengu þar stundum að spreyta sig með sveitinni.

Næstu árin og næsta áratuginn átti Helga svo eftir að starfa með fjöldanum öllum af danshljómsveitum á höfuðborgarsvæðinu. Hún hóf að syngja með Hljómsveit Trausta Thorberg á Röðli en þar var einnig Guðmundur Ingólfsson píanóleikari sem varð síðan fyrri eiginmaður hennar. Hún átti síðan eftir að syngja með hljómsveitum Guðmundar á ýmsum tímum og inni á milli annarra verkefna en veturinn 1965 til 66 var hún með Hljómsveit Reynis Sigurðssonar í Þjóðleikhúskjallaranum. Sveitirnar komu svo í röðum næstu misserin, Hljómsveit Karls Lilliendahl á Loftleiðum, Astro tríóið og Hljómsveit Þórs Nielsen komu í kjölfarið en einnig söng hún um tíma á veitingastaðnum Naustinu með tríói sem þar starfaði, Hljómsveit Gunnars Kvaran í Sigtúni og síðan hljómsveitinni Haukum ásamt Guðmundi eiginmanni sínum – sem í kjölfarið gekk um tíma undir nafninu Haukar og Helga á árunum 1969 til 71.

Helga Sigþórsdóttir

Og fleiri hljómsveitir tóku svo við, H.B. kvintettinn og Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, Örlög, B.J. og Helga (B.J. kvintettinn), GÓP og Helga sem starfaði m.a. í Klúbbnum og svo Sóló og Helga árið 1976 en um það leyti hætti Helga að syngja. Hún hafði þá starfað sem söngkona með ofangreindum hljómsveitum í á annan áratug og tekið þátt í þeirri miklu þróun sem varð á þeim tíma á dansleikjamenningu Íslendinga en bítlatónlistin, hippa-, blús- og proggrokkið voru angar af þeirri þróun – hljómsveitir Helgu tóku þátt í þeim breytingum öllum en sinntu þó einkum unnendum gömlu dansanna og almennrar danstónlistar.

Helga sneri sér að allt öðrum hugðarefnum í kjölfarið, hún hafði líkast til aldrei lokið hárskeranáminu en lauk hins vegar prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og skóp sér þar allt annan starfsvettvang og ólíkum þeim sem danshús höfuðborgarsvæðisins buðu upp á. Hún hefur lítið sem ekkert komið fram sem söngkona síðustu áratugina eftir því sem best verður komist, kom reyndar fram í söngatriði á skemmtikvöldum Borgfirðinga og Mýramanna á Hótel Íslandi við aldamót en hefur hins vegar haldið úti vefsíðu um feril sinn, www.helgasigthors.com þar sem líta má myndefni og annan fróðleik um söngferil hennar.