Hljómsveit Bjarna Þórðarsonar (1931-32 / 1940)

Hljómsveitir voru tvívegis starfræktar í nafni Bjarna Þórðarsonar píanóleikara en Bjarni þessi var þekktastur fyrir að vera undirleikari hins vinsæla MA-kvartetts.

Fyrri sveit Bjarna var sett á laggirnar haustið 1931 til að flytja tónlistina undir söng leikara í revíunni/óperettunni Lagleg stúlka gefins sem var jólasýning Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó. Hljómsveit þessi var átta manna en engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu hana aðrir en Bjarni. Tónlistin úr sýningunni var einnig flutt á Hótel Borg laust eftir áramótin en þá lék sveitin einnig aðra tónlist.

Þá starfrækti Bjarni Þórðarson einnig hljómsveit í eigin nafni árið 1940 en í það skiptið var um að ræða danshljómsveit sem lék a.m.k. tvívegis, annars vegar á dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði snemma árs og hins vegar um sumarið á dansleik sem félag ungra sjálfstæðismanna stóð fyrir á Þingvöllum. Engar upplýsingar er heldur að finna um meðlimi þessarar sveitar, hljóðfæraskipan eða stærð.