Skráning hafin fyrir Músíktilraunir

Músíktilraunir Hins hússins fara fram í Norðurljósasal tónlistarhússins Hörpu í næsta mánuði en keppnin hefur verið haldin árlega nánast óslitið frá árinu 1982 þegar hljómsveitin DRON bar sigur úr býtum. Fjölmargar þekktar hljómsveitir hafa sigrað tilraunirnar og nægir hér að nefna sveitir eins og Maus, Dúkkulísurnar, XXX Rottweiler, Of monsters and men og Mammút. Í fyrra sigraði hljómsveitin Fókus.

Opnað verður fyrir skráningu í keppnina í dag 5. febrúar og stendur sú skráning yfir til 19. febrúar nk. Músíktilraunirnar fara svo fram eins og fyrr segir í Norðurljósasal Hörpu 10.-16. mars – undanúrslitin fjögur kvöld í röð þann 10.-13. og úrslitin laugardaginn 16. mars. Hver hljómsveit eða keppandi þarf að skila inn tveimur tóndæmum og mynd, og fer skráningin fram í gegnum vefsíðu Músíktilraunanna.

Músíktilraunir Hins hússins eru opnar öllum á aldrinum 13-25 ára en reiknað er með fjörutíu til fimmtíu keppisatriðum – tíu til tólf atriði keppa svo til úrslita á laugardagskvöldinu en Rás 2 verður með beina útsendingu frá keppninni og einnig verður beint streymi frá Ríkissjónvarpinu sem vinnur síðan sjónvarpsþátt úr efninu.

Og nú er bara að skrá sig!