Afmælisbörn 10. febrúar 2024

Jóhann Bachmann

Tvö afmælisbörn koma við sögu í dag:

Jóhann Bachmann Ólafsson (Hanni Bach) trommuleikari frá Selfossi er fjörutíu og átta ára gamall á þessum degi. Hanni hefur leikið með mörgum hljómsveitum í gegnum tíðina en þekktastar þeirra eru Skítamórall og Írafár. Aðrar sveitir eru til dæmis Loðbítlar, Poppins flýgur og Boogie knights svo fáeinar séu tíndar til.

Þá á Þorkell (Sigurmon) Símonarson eða Keli vert í Langaholti eins og hann er betur þekktur, fimmtíu og fimm ára afmæli í dag. Þorkell var í hljómsveitunum Sveitasveitinni Hundslappadrífu og Stormi í aðsigi sem gáfu út nokkrar plötur fyrir nokkrum árum en hann hefur einnig komið lítillega við sögu á öðrum plötum. Þess má og geta að hann samdi textann við Eurovision lagið Tangó sem Heiða Eiríksdóttir söng við nokkrar vinsældir.

Vissir þú að dæmi voru um að harmonikkuleikarar á dansleikjum í gamla daga dönsuðu um leið og þeir spiluðu – þeir höfðu þá nikkuna á bakinu á dömunni.