Afmælisbörn 12. febrúar 2024

Magnús Pétursson

Fimm afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Franz Gunnarsson gítarleikari Ensíma er fjörutíu og níu ára gamall á þessum degi. Franz hefur auk þess að vera einn af meðlimum Ensíma, verið í þekktum sveitum eins og Dr. Spock, Quicksand Jesus og Moody company en einnig minna þekktum á sínum yngri árum s.s. Dagfinni dýralækni og Carpe diem þegar hann var að stíga sín fyrstu spor í tónlistinni. Franz poppar reglulega upp á plötum annarra listamanna en hefur undanfarin ár komið fram undir nafninu Paunkholm.

Steinar Gunnarsson bassaleikari fagnar í dag fimmtíu og fimm ára afmæli sínu. Steinar sem er þekktastur sem bassaleikari Súellen á Norðfirði starfaði með nokkrum öðrum hljómsveitum fyrir austan og meðal þeirra má nefna Fiff, Ný augu, Dætur Satans og Spíss. Hann hefur jafnframt gefið út plötu í samstarfi við Bjarna Tryggva og leikið inn á fjölda hljómplatna í gegnum tíðina.

Erwin (Pétur) Koeppen bassaleikari átti afmæli á þessum degi en hann lést árið 2019. Erwin sem var fæddur 1925 lék með fjölda hljómsveita á árum áður eins og sveitum Björns R. Einarssonar, Carls Billich, Jans Morávek og Baldurs Geirmundssonar, og Sinfóníuhljómsveit Íslands svo dæmi séu nefnd.

Gítarleikarinn Sigurjón Axelsson (1973-91) átti þennan afmælisdag einnig en hann lést aðeins átján ára gamall. Sigurjón þótti afar efnilegur tónlistarmaður og starfaði með ýmsum hljómsveitum á sinni stuttu ævi, til að mynda með Flintstones og Titanic auk þess sem hann var í fyrstu útgáfu hljómsveitarinnar Lipstick lovers. Þá starfaði hann jafnframt sem dagskrárgerðarmaður á útvarpsstöðinni Rót undir nafninu Sjonny Flintstón.

Þá átti (Jón) Magnús Pétursson píanóleikari (1930-83) afmæli á þessum degi. Magnús var fjölhæfur tónlistarmaður, samdi lög og texta, útsetti, stjórnaði kórum, kenndi tónlist auk þess að leika á píanó en hann starfaði með mörgum hljómsveitum á ferli sínum og lék inn á mikinn fjölda hljómplatna. Hann var þó e.t.v. þekktastur sem píanóleikarinn í Morgunleikfimi Valdimars og Magnúsar í Ríkisútvarpinu.

Vissir þú að John Miles og hljómsveit hans gáfu út Trúbrotslagið To be grateful á smáskífu árið 1974?