Afmælisbörn 23. febrúar 2024

Ágúst Ármann Þorláksson

Afmælisbörn dagsins eru þrjú að þessu sinni:

Baldvin Kristinn Baldvinsson baritónsöngvari og bóndi er sjötíu og fjögurra ára í dag. Hann er annar Rangárbræðra (frá Rangá í Köldukinn) en þeir gáfu út plötu árið 1986, en einnig hefur Baldvin sungið einsöng með karlakórnum Hreimi á plötum sem kórinn hefur gefið út. Eftir Baldvin (sem er faðir gítarleikarans Þráins Árna Baldvinssonar) liggja tvær sólóplötur þar sem hann syngur lög úr ýmsum áttum.

Jón Björnsson tónskáld, organisti og kórstjórnandi (1903-1987) hefði átt afmæli á þessum degi en hann var mikill tónlistarfrömuður norðan heiða, stjórnaði m.a. Karlakórnum Heimi í nær fjörutíu ár. Jón var bóndi á Hafsteinsstöðum í Skagafirði, samdi á annað hundrað sönglög, var einn af stofnendum Heimis og stjórnaði mörgum kórum auk þess að vera organisti í sveitinni. Plata með nokkrum af lögum hans kom út í tilefni af hundrað ára fæðingarafmælis hans 2003.

Annar tónlistarfrömuður, Ágúst Ármann Þorláksson harmonikku- og hljómborðsleikari (fæddur á Skorrastað í Norðfirði 1950) átti líka þennan afmælisdag en hann kenndi í og veitti tónlistarskólum forstöðu, var organisti og stýrði kórum, mest austanlands. Hann starfaði með Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar, Ósíris, Sjöttu plágunni og Amon Ra á árum áður en í síðast töldu sveitinni lék hann á bassa. Ágúst Ármann lést haustið 2011.

Vissir þú að söngvarinn Garðar Thór Cortes var sem krakki í hljómsveit sem hét Villtu þorskarnir frá Ísafirði?