
Herbert H. Ágústsson
Herbert H. Ágústsson var einn fjölmargra tónlistarmanna sem komu til Íslands um miðja síðustu öld og settu svip sinn á íslenskt tónlistarlíf með ýmsum hætti. Herbert settist hér að og varð þekktur hljóðfæraleikari, kóra- og hljómsveitastjóri, tónlistarkennari og tónskáld.
Herbert Hriberscheck kom upphaflega frá Austurríki, hann fæddist þar í smáþorpi sumarið 1926 og flutti ungur að árum með fjölskyldu sinni til Graz þar sem hann hóf að læra á fiðlu átta ára gamall, síðar nam hann bæði á píanó og horn auk framhaldsnáms í hornleik og tónsmíðum í Vín. Hann hóf svo að leika með Fílharmóníusveit Graz m.a. undir handleiðslu Franz Mixa sem flutti til Íslands árið 1929 en það var einmitt hann sem fékk Herbert til að koma hingað til lands árið 1952 til að fylla stöðu fyrsta hornleikara við nýstofnaða Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Herbert hafði ekki í hyggju í að dveljast hér á landi nema í eitt ár en vera hans hérlendis varð þó töluvert lengri en það því hann bjó hér og starfaði til æviloka, giftist íslenskri stúlku, varð íslenskur ríkisborgari og tók upp nafnið Herbert H. Ágústsson. Samhliða spilamennsku með sinfóníuhljómsveitinni varð Herbert mjög virkur almennt í tónlistarlífi Reykvíkinga, spilaði með kammersveitum og ýmsum minni hljómsveitum á tónleikum, og var jafnframt tíður gestur í útvarpssal.

Herbert H. Ágústsson
Auk þess að starfa sem fyrsti hornleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands (sem hann var með allt til ársins 1995) starfaði hann við tónlistarkennslu um árabil bæði við Tónlistarskólann í Keflavík þar sem hann var einnig um tíma skólastjóri (1976-86), og Nýja tónlistarskólann. Í Keflavík stjórnaði hann ýmsum hljómsveitum og kórum innan tónlistarskólans en einnig utan skólans, m.a. Drengjalúðrasveit Keflavíkur (sem síðar heyrði undir tónlistarskólann), Karlakór Keflavíkur um margra ára skeið, Lúðrasveit Keflavíkur um tíma einnig sem og Kvennakór Suðurnesja síðar – hann stjórnaði einnig kórum á höfuðborgarsvæðinu og hér má nefna Kór Kvennadeildar Slysavarnarfélags Íslands í Reykjavík sem hann stýrði um langt skeið en einnig Þjóðleikhúskórnum, Stúdentakórnum og karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði. Söng sumra kóranna undir stjórn Herberts má heyra á útgefnum plötum. Auk þess stjórnaði hann um hríð Lúðrasveit Reykjavíkur.
Herbert hafði samið tónlist alla tíð og nokkuð var um að verk eftir hann voru flutt á tónleikum, á áttunda áratugnum varð hann svo mun afkastameiri sem tónskáld og fjölmörg tónverk af ýmsu tagi voru flutt eftir hann á tónleikum og í útvarpi. Hann vann m.a. til verðlauna í samkeppni sem haldin var í tilefni af þjóðhátíðarhöldum vegna 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974, það verk bar nafnið Tilbreytni og var samið fyrir stóra hljómsveit, einnig má nefna hljómsveitarverkið Athvarf sem Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti á Listahátíð í Reykjavík árið 1974, kammerverkið Sálmar á atómöld, Struttua I fyrir flautu og píanó, og svo fjölmörg sönglög, bæði einsöngs- og kórlög. Mörg þeirra hafa komið út á plötum en hér má sérstaklega nefna Kvintett fyrir blásara á plötu Blásarakvintetts Reykjavíkur – Íslensk tónlist fyrir tréblásara / Icelandic music for woodwinds, sem kom út á vegum Íslenskrar tónverkamiðstöðvar árið 1987. Hann var árið 1977 sæmdur austurrísku heiðursmerki – Goldenes Emrenzeichen für Verdienste um die Republik Österreich, fyrir tónlistarstörf sín á erlendum vettvangi.
Herbert H. Ágústsson lést sumarið 2017, ríflega níræður að aldri.














































