
HGH tríóið frá Bíldudal
HGH tríóið hefur sögulegu hlutverki að gegna í menningarsögu Bílddælinga en sveitin var fyrsta hljómsveitin sem starfaði í þorpinu.
Ekki er alveg á hreinu hvenær HGH tríóið byrjaði að spila saman en hugsanlega var það árið 1955, jafnvel fyrr – það voru þeir bræður Hreiðar harmonikkuleikari og Guðbjörn trommuleikari Jónssynir og Jón Ástvaldur Hall Jónsson gítarleikari sem skipuðu tríóið. Þeir Guðbjörn og Jón Ástvaldur voru framan af of ungir til að leika á dansleikjum svo sérstakt sýslumannsleyfi þurfti til þess en Hreiðar var nokkrum árum eldri. Upphaflega voru þeir Guðbjörn og Hreiðar tveir en þegar Jón Ástvaldur bættist í hópinn tóku þeir upp tríóið nafnið en HGH stendur fyrir upphafsstafi þeirra þriggja (Hreiðar – Guðbjörn – Hall).
Árið 1956 bættist Guðmundur Rúnar Einarsson gítarleikari í hópinn og þar með var nafni sveitarinnar breytt í HGH kvartettinn, skipan sveitarinnar var mjög óvenjuleg á þessum tíma, harmonikka, trommur og tveir gítarar en það var í raun ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem tíðkaðist að hafa tvo gítarleikara innanborð í hljómsveitum.
Sveitin spilaði mestmegnis í heimaþorpinu og næsta nágrenni en árið 1957 bættu þeir félagar við sig söngvara (Jón Kr. Ólafssyni) og kölluðu sig eftir það Kvartettinn og Kristján, þeir störfuðu í nokkur ár undir því nafni.














































