Hátveiro (2012-15)

Hátveiro

Hljómsveitin Hátveiro (H2O) starfaði um nokkurra ára skeið á öðrum áratug þessarar aldar og kom fram á nokkrum tónleikum á því tímabili.

Hátveiro var stofnuð árið 2012 í því skyni að flytja tónlist bresku hljómsveitarinnar Genesis en upphaflega skipan sveitarinnar var Björn Erlingsson bassaleikari, Jósep Gíslason hljómborðsleikari og Árni Steingrímsson gítarleikari en fljótlega bættust í hópinn þeir Bjarni Þór Sigurðsson söngvari og Sigurður Karlsson trommuleikari. Enn fleiri áttu eftir að bætast við sveitina áður en hún hóf opinberan leik, Don Eddy hljómborðs-, flautu-, gítar- og saxófónleikari, Nathalie Eva Gunnarsdóttir söngkona og Arnar Sebastian Gunnarsson söngvari en þau tvö síðast töldu eru systkini. Þannig mun Hátveiro hafa verið skipuð í fyrsta sinn sem hún kom fram, á tónlistarhátíðinni Trommaranum 2013 en þar var Sigurður einmitt heiðraður fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.

Á tónleikum í Háskólabíói

Snemma árs 2014 lék sveitin á tvennum fjölsóttum tónleikum í Salnum í Kópavogi þar sem lög Genesi voru í brennidepli en einnig kom sveitin fram tvívegis á Græna hattinum á Akureyri og á Menningarnótt í Reykjavík síðar sama ár. Árið 2015 lék sveitin svo á tvískiptum tónleikum í Háskólabíói þar sem fyrri hluti tónleikanna var tileinkaður Genesis en síðari hlutinn sólóferli Peter Gabriel söngvara sveitarinnar. Þær breytingar höfðu þá orðið á skipan sveitarinnar að í stað systkinanna Arnars og Nathalie voru komin Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Jónína Aradóttir og Þór Breiðfjörð.

Sveitin hætti störfum eftir tónleikana í Háskólabíói en hægt er að sjá myndefni frá þeim tónleikum sem og frá Trommaranum 2013 á Youtube.