Heróglymur (1999-2006)

Heróglymur

Rokksveitin Heróglymur kom fram á sjónarsviðið rétt fyrir aldamótin 2000 og starfaði í nokkur ár, hún var skipuð nokkrum ungum tónlistarmönnum úr Réttarholtsskóla.

Heróglymur (einnig stundum ritað Heroglymur) var stofnuð haustið 1999 og lék fyrsta árið mestmegnis innan veggja Réttarholtsskóla en fljótlega eftir áramótin 2000-01 fór sveitin að láta að sér kveða á tónleiksviðinu utan skólans og um vorið 2001 var hún meðal þátttökusveita í Músíktilraunum, þá voru meðlimir hennar þeir Þórður Hermannsson gítarleikari og söngvari, Daníel Freyr Sigurðsson trommuleikari, Kristján Jökull Sigurðsson bassaleikari, Pétur Kjartan Kristinsson gítarleikari og Trausti Laufdal Aðalsteinsson gítarleikari. Ekki liggur fyrir hvort þetta var skipan sveitarinnar alla tíð eða hvort einhverjar mannabreytingar urðu í henni, Donna Hermannsdóttir gæti t.d. hafa sungið með Heróglymi síðar. Sveitin komst í úrslit Músíktilraunanna en reyndar ekki á verðlaunapall.

Heróglymur var nokkuð öflug í spilamennskunni í kjölfarið, sveitin lék á fjölda tónleika víða um höfuðborgarsvæðið og var einnig virk í félagsstarfinu í Bústaðahverfinu, lék t.d. í uppfærslu á Jesus Christ Superstar sem sett var á svið í Bústaðakirkju, þá lék sveitin einnig á stöðum eins og Grand rokk og fleiri slíkum stöðum og tók m.a. þátt í undankeppni hljómsveitakeppninnar Global battle of the bands en komst þar ekki áfram í úrslit.

Sveitin starfaði allt til ársins 2006 en þá lék hún m.a. á afmælishátíð Réttarholtsskóla ásamt fleiri hljómsveitum frá fyrri tímum úr skólanum, nafni sveitarinnar var svo breytt í Winterman um haustið. Þá hafði komið út smáskífa með sveitinni árið 2005 en ekki liggja fyrir neinar frekari upplýsingar um þá skífu.

Efni á plötum