
Hjálmar Jónsson
Hjálmar Jónsson var einn af þeim tónlistarforkólfum sem er hverjum hreppi nauðsynlegur en hann var organisti og forsöngvari í Mývatnssveit, og af honum er þekkt tónlistarfólk komið.
Hjálmar var fæddur haustið 1865 og alinn upp á Skútustöðum við Mývatn, ekki liggja fyrir upplýsingar um tónlistariðkun á æskuheimilinu en hann fór suður til Reykjavíkur um tvítugt, lærði þar orgelleik og tónfræði, og settist svo að um skeið hjá bróður sínum á Borg á Mýrum sem var þar prestur en Hjálmar varð organisti þar. Hann fór svo norður í Ólafsdal og nam þar búfræði en fluttist svo aftur í heimahagana í Suður-Þingeyjarsýslu, giftist og bjó lengst af á Ljótsstöðum í Laxárdal, hann starfaði sem bóndi og verkstjóri m.a. við vegagerð og var framarlega í félags- og menningarstarfinu í sveit sinni – hann varð þekktur fyrir að leika á orgelið við eigið brúðkaup. Þá var hann forsöngvari og organisti við Þverárkirkju í Laxárdal í um 30 ár, og kenndi bæði söng og hljóðfæraleik í heimahögum.
Hjálmar lést í hárri elli vorið 1952 en meðal barna hans var Ragnar H. Ragnar síðar tónlistarfrömuður á Ísafirði, faðir Hjálmars H. Ragnarssonar og fleira tónlistarfólks.














































