
Hjálmar Kjartansson
Nafn Hjálmar Kjartanssonar óperusöngvara er ekki vel þekkt í dag en Hjálmar hafði sönginn að aukastarfi í áratugi og söng t.a.m. í fjölda óperuuppfærsla.
Hjálmar Kjartansson fæddist vorið 1922 í Reykjavík og bjó þar og starfaði alla ævi. Hann var menntaður málarameistari og var reyndar einnig frístundamálari, nam t.a.m. við Myndlistar- og handíðaskólann en söngurinn tók þó lengstum mesta tímann utan hefðbundins vinnutíma málarameistarans. Hjálmar sem hafði djúpa bassarödd nam söng hjá Sigurði Demetz söngkennara um nokkurra ára skeið en var að öðru leyti ómenntaður í sönglistinni.
Hjálmar söng alla tíð með kórum og var meðlimur í fjölda kóra frá því um miðja öld og allt fram á tíunda áratuginn, hér má nefna Útvarpskórinn, Þjóðleikhúskórinn, Fríkirkjukórinn, Óperukórinn, Pólýfónkórinn og Karlakór Reykjavíkur en einnig mun hann hafa starfað með söngkvartett á sínum yngri árum. Hann söng jafnframt einsöng með sumum kóra sinna á tónleikum og skemmtunum en einnig margoft með kórum eins og Alþýðukórnum, Kirkjukór Hallgrímskirkju, Háteigskirkjukórnum, Kór Bústaðakirkju, Karlakór Keflavíkur, Óratoríukór Dómkirkjunnar og Skagfirsku söngsveitinni en hann gæti einnig hafa verið fastur meðlimur í einhverjum þeirra kóra.
Hjálmar tók þátt í fjölda uppfærsla á óperum og óperettum á vegum Þjóðleikhússins allt frá árinu 1957 og til 1987 en var þar þó iðulega í minni einsönghlutverkum, þau hlutverk voru líklega um tuttugu talsins og hér má nefna Tosca, Rakarann í Sevilla, Rigoletto, Amahl og næturgestina, Il trovatore, Madame butterfly, Brúðkaup Fígarós, La traviata, Töfraflautuna og Carmen svo nokkur dæmi séu nefnd. Auk þess söng hann einsöng í ballet- og kabarettuppfærslum, og kom fram sem einsöngvari á hvers kyns tónlistartengdum skemmtunum og uppákomum, hann söng jafnframt við jarðarfarir, í útvarpssal og við önnur tilefni. Fastur liður hjá honum um margra ára skeið var að syngja einsöng við jólamessu Fríkirkjusafnaðarins.
Hjálmar gaf aldrei út plötu í eigin nafni en einsöng hans má þó heyra á plötum Þjóðleikhúskórsins – Raddir úr leikhúsi (1970) og Pólýfónkórsins – Vivaldi & Bach (1977), hann söng svo að sjálfsögðu inn á nokkrar plötur með þeim kórum sem hann starfaði með á sínum tíma.
Hjálmar Kjartansson lést haustið 2007 áttatíu og fimm ára gamall.














































