Hjalti Gunnlaugsson (1956-)

Hjalti-gunnlaugsson

Hjalti Gunnlaugsson er vel þekkt nafn í hinum kristilega hluta tónlistarinnar hér á landi og hefur komið að miklum fjölda útgefinna platna í þeim geira auk þess að senda sjálfur frá sér nokkrar sólóplötur en hann á sér einnig sögu í almennri ballspilamennsku.

Hjalti Gunnlaugsson er Reykvíkingur, fæddur 1956 og mun hafa byrjað á að læra á orgel en um 12 ára aldur var það gítarinn sem tók við enda var þá bítla- og hipparokk sem fangaði huga ungra manna. Hann lærði eitthvað á gítar og hóf svo að leika með hljómsveitinni Námsfúsu Fjólu þegar hann var 17 ára gamall og skömmu síðar einnig með hljómsveitinni Birtu en með þeim sveitum starfaði hann næstu árin og lék á dansleikjum, líklega  mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu – hann hafði þá verið búinn að semja tónlist frá því á unglingsaldri,

Árið 1980 urðu tímamót í lífi Hjalta þegar hann hóf að starfa með félagsskapnum Ungt fólk með hlutverk og frelsaðist, og upp frá því tók hann virkan þátt í kristilegu starfi og ekki síst tónlistarstarfinu þar. Hann hafði tveimur árum áður komið við sögu á kassettu sem Shalom æskulýðshópurinn sendi frá sér undir nafninu Syngið Drottni nýjan söng! en árið 1980 sendi hann sjálfur frá sér lofgjörðarkassettu sem bar nafnið Opnum hjörtu okkar, litlar upplýsingar er að finna um þá útgáfu en líklega samdi Hjalti sjálfur að einhverju eða öllu leyti efnið.

Á þessum árum starfaði hann með sinni fyrstu hljómsveit innan kristilega starfsins, sú sveit bar nafnið 1. kor. 13 og sendi frá sér eina tveggja laga smáskífu árið 1981 og í framhaldinu og alla tíð síðan hefur Hjalti leikið með allmörgum hljómsveitum innan starfsins sem flestar hafa líkast til verið nafnlausar, og leikið á miklum fjölda tónleika og samkoma bæði á gítar og hljómborð og jafnvel á trommur, hann hefur jafnvel komið við sögu á tónleikum í Djúpinu þar sem tónlist sem skilgreind var sem gospeldjass, var leikin. Þá starfrækti hann um tíma ásamt þáverandi eiginkonu sinni Helgu Bolladóttur og sonum þeirra hljómsveitina Syngjandi fjölskyldan. Hjalti hefur jafnframt sungið bæði einsöng og í kórum innan kristilega samfélagsins. Hjalti hefur samhliða þessu einnig eitthvað leikið dinner tónlist á veitingastöðum, hann starfaði við slíkt á Fjörukránni t.d. í kringum 1900. Þá má nefna að hann starfaði um tíma á útvarpsstöðinni Alfa sem dagskrárgerðarmaður.

Hjalti hefur komið við sögu á miklum fjölda platna sem tengjast hinu kristilega starfi en þó ekki eingöngu, árið 1981 kom t.a.m. út tveggja laga plata með nemendum Fellaskóla þar sem hann samdi annað laganna og lék einnig á plötunni, og einnig má geta smáskífunnar Hjálpum þeim, styrktarplötunnar vinsælu fyrir jólin 1985 en þar var Hjalti í kórnum, að öðru leyti hefur tónlistarstarf hans að mestu einskorðast við trúarlega tónlist.

Hjalti Gunnlaugsson

Árið 1985 kom út fyrsta eiginlega sólóplata Hjalta en hún bar nafnið Sannleikurinn í lífi mínu og hafði að mestu að geyma lög og texta eftir hann sjálfan, sú plata fékk nokkra almenna athygli og m.a. var myndband gert við eitt laganna sem leikið var í tónlistarþættinum Skonrokki í Ríkissjónvarpinu – platan hlaut ennfremur ágæta dóma í DV en nokkur fjöldi þekkts tónlistarfólks tók þátt í gerð plötunnar með honum. Áður hafði hann leikið á plötu Njarðvíkingsins Jóns Sveinssonar – Kom, Guð hann kallar, en sjálfur bjó Hjalti í Njarðvíkum um það leyti.

Í kjölfarið komu út fjölmargar plötur með Hjalta innanborðs, ýmist sem flytjandi í formi söngvara eða hljóðfæraleikara eða sem laga- eða textahöfundur. Hér má nefna plöturnar Enn er von (1986), Á krossgötum (1987), Hjálparhönd (1988) en hann hafði yfirumsjón með þeirri útgáfu, Ljósbrot (1989), Helg eru jól (1991), Anna Júlíana Þórólfsdóttir – Söngur til þín (1996), Ómar Diðriksson – Vinur veganna (1998), Allir mætast þar (1999), Þorvaldur Halldórsson – Drottinn er minn hirðir (2000), Gospelkór Fíladelfíu – Gleði (2003), Guðrún Júlína Tómasdóttir – Saman stöndum við (2005), Edgar Smári Atlason – Ferðalangur (2006) og Hrönn Svansdóttir – Hljóður: við spegilsléttan fjörð, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Árið 2002 kom önnur sólóplata Hjalta út, hún bar nafnið Á himnum en þar naut hann m.a. fulltingis sona sinna sem bæði syngja og semja hluta af tónlistinni á plötunni, og árið 2009 kom svo platan Í einrúmi út en á henni sér Hjalti sjálfur um allan söng og hljóðfæraleik. Hann mun eiga um fimmtíu frumsamin lög sem komið hafa út á plötum, bæði sólóplötum og annarra.

Efni á plötum