Hjartsláttarkvöld [tónlistarviðburður] (1998-2000)

Hin svokölluðu Hjartsláttarkvöld voru haldin um tveggja ára skeið á Kaffi Thomsen við Hafnarstræti en þar voru kynntir nýir straumar og stefnur einkum í dans- og jaðartónlist en slík bylgja gekk þá yfir hérlendis. Kvöld þessi voru haldin á sunnudagkvöldum einu sinni í mánuði og var ástæðan fyrir tímasetningunni að aðstandendur þeirra vildu stíla inn á fólk sem hlustaði á tónlistina í stað þess að djamma við hana. Á bak við Hjartsláttarkvöldin voru Hr. Örlygur (Snorri Sturluson), Björk og Gus Gus en einkum voru það erlendir tónlistarmenn, dj-ar mestmegnis sem komu fram á þessum kvöldum, sem einnig voru haldin í Ráðhúskaffi á Akureyri í nokkur skipti.

Fyrsta Hjartsláttarkvöldið fór fram í mars 1998 og voru þau haldin með reglulegu millibili líklega fram á haustið 2000 en haustið 1999 kom svo út plata sem hafði að geyma úrval tónlistar frá viðburðunum, alls fimmtán lög sem ýmist höfðu ekki komið út annars staðar eða voru sjaldséð á plötum. Platan sem bar titilinn Heartbeat (Sunday session in Reykjavík) var því að mestu leyti með erlendum flytjendum en þar var þó einnig efni með Björk, Gus Gus og Sanasol.

Efni á plötum