Hljómsveit Erichs Hübner (1957-62)

Hljómsveit Erichs Hübner

Trommuleikarinn Erich Hübner (Erik Hubner) starfrækti hljómsveit í eigin nafni eftir að hann flutti suður til Reykjavíkur árið 1952 frá Ísafirði en ekki er ljóst hvenær sú sveit tók til starfa. Fyrir liggur að sveitin var starfandi á árunum 1957 til 1962 en hún gæti hafa verið stofnuð fyrr.

Meðlimir sveitarinnar voru árið 1957 þeir Siggeir Sverrisson bassaleikari, Ólafur Kristjánsson píanóleikari, Hörður Magnússon víbrafónleikari, Bragi Hlíðberg harmonikkuleikari og Erich sem eins og fyrr segir lék á trommur en enginn söngvari söng þá með henni. Á einhverjum tímapunkti starfaði sveitin sem tríó þeirra Erichs, Magnúsar Randrup harmonikkuleikara og Magnúsar Guðjónssonar píanóleikara og í ársbyrjun 1962 birtist frétt þess efnis í fjölmiðlum að Gunnar Ormslev saxófónleikari og Cole Porter söngvari væru gengnir til liðs við sveitina – ekki er getið hverjir voru þá þar fyrir en í sömu frétt er tekið fram að sveitin hafi þá um árabil leikið á Keflavíkurflugvelli, líklega hafði þessi sveit leikið þar mest alla tíð frá 1957.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um Hljómsveit Erichs Hübner.