Hjónabandið [4] (1993-2012)

Hjónabandið

Hjónabandið svokallaða úr Önundarfirðinum var eins og nafnið gefur til kynna dúett eða hljómsveit hjóna en þau Árni Brynjólfsson og Erna Rún Thorlacius bændur á Vöðlum í Önundarfirði störfuðu undir þessu nafni til fjölda ára og léku fyrir dansi og söng, mest á Vestfjörðum en einnig víðar um land og reyndar einnig að minnsta kosti tvívegis á skemmtunum Íslendingafélagsins í Chicago í Bandaríkjunum.

Þau Árni sem söng og lék á harmonikku og skemmtara og Erna Rún sem söng hófu að koma fram undir þessu nafni haustið 1993 og léku svo fyrir dansi nokkuð reglulega eftir það, mest í heimabyggð og nágrannasveitarfélögunum s.s. Ísafirði, Bolungarvík, Súðavík og jafnvel Drangsnesi en framan af var stundum erfitt að fara milli fjarða fyrir vestan, það lagaðist þó með tilkomu Vestfjarðagangnanna. Stundum var þó um lengri leiðir að fara og þau hjónin skemmtu t.d. víðar um landsbyggðina s.s. Ólafsvík og á höfuðborgarsvæðinu, og svo í Bandaríkjunum sem fyrr er getið.

Hjónabandið sendi frá sér tvö lög (Vina mín / Dansinn) á safnplötunni Lagasafnið 7 árið 1999 en þar nutu þau aðstoðar Birkis L. Guðmundssonar félaga Árna úr hljómsveitinni Rokkbændum.

Þau Árni og Erna Rún störfuðu saman undir þessu nafni til ársins 2012 að minnsta kosti, og hugsanlegt er að þau troði stöku sinnum enn upp í nafni Hjónabandsins.