Hjörleifur Björnsson (1937-2009)

Hjörleifur Björnsson

Tónlistarmaðurinn Hjörleifur Björnsson var kunnur bassaleikari á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, lék með nokkrum danshljómsveitum áður en hann freistaði gæfunnar erlendis en hann bjó og starfaði í Svíþjóð megnið af ævi sinni.

Hjörleifur Baldvin Björnsson var fæddur (sumarið 1937) og uppalinn á Akureyri, hann byrjaði sinn tónlistarferil sem gítarleikari en færði sig fljótlega yfir á bassann. Hann lék með hljómsveit á Hótel KEA og hefur sú sveit ýmist verið kölluð H.B. hljómsveit (eftir honum sjálfum) eða hljómsveit Ingimars Eydal en það mun hafa verið fyrsta sveit Ingimars.

Þegar Hjörleifur fluttist suður til Reykjavíkur árið 1956 hóf hann nám í kontrabassaleik hjá Einari B. Waage og um svipað leyti hóf hann að leika með hljómsveit Gunnars Reynis Sveinssonar á Röðli, með þeirri sveit lék hann inn á tvær plötur með Hauki Morthens en síðan tóku við hljómsveitir eins og Orion kvartett og hljómsveit Árna Elfar sem hann lék með um nokkurra ára skeið, hann lék einnig lítillega með hljómsveit Jóns Sigurðssonar sem starfrækt var í kringum sýningar á leikritinu Allra meina bót og svo með hljómsveit Hauks Morthens um hríð áður en hann fór til Kaupmannahafnar til frekara náms í kontrabassaleik haustið 1963.

Hjörleifur Björnsson

Ekki liggur fyrir hversu lengi Hjörleifur var í Danmörku en þaðan fór hann til Malmö í Svíþjóð og loks til Stokkhólms árið 1970 en þar átti hann eftir að búa og starfa til æviloka. Upplýsingar um líf Hjörleifs og störf í Svíþjóð eru ekki miklar, heimildir herma að hann hafði kennt tónlist við tónlistarskólann Södra Latin um þrjátíu ára skeið en lék jafnframt með fjölda hljómsveita þar, þær voru líkast til flest allar í djassgeiranum og hér má nefna Stórsveit Stokkhólms, Nacka Big Band, Royal Big Band og Jazzin Dukes en síðast talda sveitin kom hingað til lands og lék hér á nokkrum tónleikum árið 2002, þá hafði hann áður (1999) heimsótt Ísland með hljómsveitinni The Immigrants en sú sveit var skipuð íslenskum djasstónlistarmönnum búsettum í Svíþjóð að mestu leyti. Hann starfaði einnig um tíma í djasssveit sem kennd var við Pétur Östlund trommuleikara sem einnig bjó í Svíaríki en sú sveit mun m.a. hafa leikið á djassfestivali í Póllandi snemma á níunda áratgnum.

Hjörleifur sem gekk undir nafninu Höddi Björnsson í Svíþjóð, var virtur bassaleikari þar í landi og lék inn á tugi platna með sænsku tónlistarfólki, hann lék jafnframt inn á plötu Þóris Baldurssonar – Þórir Baldursson leikur vinsæl íslenzk lög (1971) en Þórir bjó þá einmitt líka í Svíþjóð. Margt samferðafólks hans var meðal þekktustu tónlistarmanna Svíþjóðar, einkum í djasstónlistargeiranum og lék hann einnig með fjölmörgum bandarískum djasstónlistarmönnum sem störfuðu í Svíþjóð, og þess má geta að hann lék undir með hljómsveitinni Abba þegar sú sveit kom fram í sjónvarpi í fyrsta sinn.

Hjörleifur lést í febrúar 2009 í Svíþjóð en hann hafði þá átt við veikindi að stríða um nokkurt skeið.