Afmælisbörn 24. maí 2024

Kristján Jóhannsson

Afmælisbörn dagsins eru fimm talsins í dag hjá Glatkistunni:

Kristján Jóhannsson tenórsöngvari á sjötíu og sex ára afmæli á þessum degi. Kristján hóf sinn söngferil fyrir norðan, nam söng fyrst á Akureyri en síðan í Reykjavík og á Ítalíu, þar sem hann starfaði um árabil en er nú fyrir nokkru fluttur heim til Íslands. Um tugur platna hefur komið út með söng Kristjáns síðan 1983 en hann hefur einnig sungið á plötum ýmissa annarra söngvara og kóra.

Bjarni Ómar Haraldsson söngvari og gítarleikari frá Raufarhöfn er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Hann hefur starfað með ballhljómsveitum frá unga aldri, þar má nefna sveitir eins og Annexiu, Kokkteil, Antík og Sífrera en einnig hefur Bjarni Ómar gefið út þrjár sólóplötur og starfað sem trúbador.

Sigurgeir Jónsson organisti og kórstjórnandi (1932-2015) átti afmæli á þessum degi. Hann kom víða við í tónlistinni, starfrækti hljómsveitir á yngri árum í Öræfum þar sem hann bjó alla tíð, söng með kórum og var t.a.m. einn af stofnmeðlimum karlakórsins Jökuls á Höfn í Hornafirði. Þá var hann organisti við Hofskirkju í tvo áratugi, einn af stofnendum Harmonikufélags Hornafjarðar og þannig nætti áfram telja.

Lene Viderø söngkona Bag of joys sem margir muna eftir frá því fyrir aldamót, er fjörutíu og sjö ára gömul í dag. Hún söng einnig á plötum Maus og Birgis Arnar Steinarssonar á sínum tíma en lítið hefur farið fyrir henni á söngsviðinu síðan.

Og að síðustu er hér nefnd sópran söngkonan Hulda Björk Garðarsdóttir en hún er fimmtíu og fimm ára gömul í dag. Hún nam list sína hér heima, í London og Berlín og á að baki eina plötu þar sem hún syngur sönglög eftir Garðar Karlsson ásamt Óskari Péturssyni en hún hefur að auki sungið á plötum ólíkra listamanna, allt frá Dómkórnum í Reykjavík til hljómsveitarinnar Skálmaldar.

Vissir þú að minnsta kosti þrjár hljómsveitir hafa borið nafnið Svörtu sauðirnir?