
Kristín Sæunn Pjetursdóttir
Fimm afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar á þessum degi:
Kristjana Stefánsdóttir söngkona frá Selfossi er fimmtíu og sex ára gömul á þessum degi. Kristjana sem nam söng hér heima og síðar í Hollandi, hefur gefið út nokkrar plötur með djasssöng sínum, ýmis ein eða í félagi við aðra, en hún söng á árum áður með ballhljómsveitum á Suðurlandi á borð við sveitir eins og Karma, Stress, Lótus og Mána.
Jóel (Kristinn) Pálsson saxófónleikari á fimmtíu og tveggja ára afmæli í dag. Jóel hefur leikið með óteljandi djasskvartettum og –tríóum en auk þess með sveitum eins og Milljónamæringunum, Stórsveit Reykjavíkur og Atlantshaf(sbandalaginu). Hann hefur einnig þótt ómissandi á plötum hljómsveita og annarra flytjenda þegar skreyta hefur þurft lög með rörablæstri.
Söngkonan Margrét (Júlíana) Sigurðardóttir söngkona, píanó- og fiðluleikari á fimmtíu og eins árs afmæli á þessum degi. Margrét spratt fram á sjónarsviðið bráðung þegar hún sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna og í kjölfarið hóf hún að syngja við alls kyns tækifæri og með hljómsveitum á borð við Jökulsveitinni, Burkna, Yrju, Ómum, Blush og Limbó en tók einnig þátt í uppfærslum á söngleikjum.
Jan Morávek (fæddur 1912) átti einnig afmæli þennan dag en hann starfrækti og starfaði með fjöldanum öllum af hljómsveitum hér fyrr á árum samhliða því að leika inn á plötur. Morávek spilaði á fjöldann allan af hljóðfærum og var reyndar þekktur fyrir það, en auk þess stýrði hann bæði kórum og lúðrasveitum. Hann lést árið 1970.
Og að lokum er hér nefnd kórstjórnandinn og tónmenntakennarinn Kristín Sæunn Pjetursdóttir. Kristín fæddist vestur í Bolungarvík á þessum degi árið 1943 en bjó nánast alla tíð í Reykjavík, hún stjórnaði einkum söngkórum eldri borgara og hér má nefna Garðakórinn, Söngvini og Söngfélag Félags eldri borgara í Reykjavík (FEB) en síðast talda kórnum stjórnaði hún um langt árabil. Kristín lést árið 2021.
Vissir þú að snemma á þessari öld starfaði hljómsveit í Stykkishólmi undir nafninu Schnitzell?














































