Afmælisbörn 30. maí 2024

Hanna Dóra Sturludóttir

Afmælisbörn Glatkistunnar eru sjö talsins að þessu sinni:

Jónas Ingimundarson píanóleikari á stórafmæli en hann er áttræður í dag. Hann nam píanóleik, fyrst hér heima en síðan í Austurríki, og hefur starfað sem píanóleikari, kórstjórnandi og píanókennari síðan. Píanóleik hans má heyra á fjölmörgum plötum, þar af nokkrum sólóplötum. Jónas hefur ennfremur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir tónlistarstörf sín, þar má nefna fálkaorðuna og heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran söngkona frá Búðardal á fimmtíu og sex ára afmæli í dag. Hún nam söng hér heima og í Þýskalandi þar sem hún starfaði um árabil og lagði áherslu á ljóðasöng, en plötur með söng hennar hafa komið út á Íslandi og í Þýskalandi en Hanna Dóra hefur haldið tónleika mjög víða um Evrópu. Hún starfar einnig í Tríói Blik, sem gefið hefur út tvær plötur.

Björgvin Sigurðsson söngvari og gítarleikari Skálmaldar er fjörutíu og sex ára gamall í dag. Þekktasta sveit Björgvins er auðvitað Skálmöld en hann hefur einnig starfað í hljómsveitinni Innvortis sem poppar reglulega upp, auk fjölda annarra minna þekktra sveita í gegnum tíðina.

Sigurgrímur Jónsson er fimmtugur og á því stórafmæli á þessum degi, hann hefur leikið með fjölda hljómsveita í þyngri kantinum m.a. sem trommuleikari Múspells sem hefur gefið út fjölda platna og gítarleikari Forgarðs helvítis og Þórgunnar nakinnar en fyrrnefnda sveitin á að baki fjölmargar plötur. Sigurgrímur hefur einnig fengist við upptökur.

Guðmar Marelsson trommuleikari (fæddur 1945) átti einnig afmæli á þessum degi. Hann lék með mörgum danshljómsveitum hér áður, einkum á sjöunda áratugnum og má hér nefna sveitir eins og Ó.M. kvartett, Pónik, Rondó, Hljómsveit Aage Lorange, Tríó Elfars Berg, Garðar og Stuðbandið, Sextett Ólafs Gauks og Sóló. Guðmar lést árið 2022.

Grétar (Guðmar) Skaptason gítarleikari frá Vestmannaeyjum átti afmæli á þessum degi en hann lést af slysförum á sjó árið 1979. Grétar (fæddur 1945) lék með nokkrum hljómsveitum á sínum yngri árum og má nefna Skólahljómsveit Gagnfræðaskólans í Keflavík, Skugga (bæði í Keflavík og Vestmannaeyjum) og svo Loga en hann var einn af stofnendum þeirrar sveitar.

Þá er hér að síðustu nefndur Ari Márus Johnsen (Ari Jónsson) sem telst vera fyrsti óperusöngvari okkar Íslendinga. Ari fæddist 1860, nam óperusöng í Danmörku fyrstur Íslendinga, en bjó síðan í Þýskalandi þar sem hann starfaði lengst af en hann kom einnig eitthvað fram í Bretlandi. Hann hætti að syngja um fimmtugt en hann taldi sig þá vera orðinn of gamall til að syngja. Ari lést 1927.

Vissir þú að Margrét Eir sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna vorið 1991?