Hjörtur Howser (1961-2023)

Hjörtur Howser

Tónlistarmaðurinn Hjörtur Howser starfaði við ótrúlega fjölbreytilega tónlist um ævi sína og kom að flestum þáttum hennar en hann var hljóðfæraleikari, lagasmiður, útsetjari og upptökumaður auk þess að spila popp, rokk, pönk, trúarlega tónlist, blús, djass og hvaðeina sem í boði var. Það vekur athygli hversu mörgum þekktum hljómsveitum hann var meðlimur í.

Georg Hjörtur Howser var Hafnfirðingur, fæddur sumarið 1961 og átti íslenska móður en bandarískan föður. Hann lærði lítillega á píanó á yngri árum en nam síðar í Bandaríkjunum (kvikmyndatónlist og útsetningar) og Svíþjóð (raftónlist). Hann var farinn að starfa sem hljómborðs- og píanóleikari með hljómsveitum á unglingsaldri og hér má nefna sveitir eins og Cobra, Rokkóperu, Stormsveitina og Tívolí áður en hann lék í fyrsta sinn inn á plötu árið 1980, það var á smáskífu með Jóni Rafni Bjarnasyni. Um það leyti var hann jafnframt farinn að koma fram einn með píanóið en átti hann eftir að gera reglulega alla ævi, bæði á veitinga- og skemmtistöðum.

Á níunda áratugnum starfaði Hjörtur með fjölmörgum hljómsveitum, fyrst er hér nefnd hljómsveitin Hver sem kom reyndar upphaflega frá Akureyri og svo starfaði hann um tíma með Fermata, um það leyti byrjaði hann einnig að starfa í Hljóðrita í Hafnarfirði en hann átti eftir að vera viðloðandi plötuupptökur lengi vel. Árið 1982 gekk hann til liðs við pönksveitina Fræbbblana sem þá voru að færa sig nær nýbylgjuskotnu synthapoppi, hann lék með þeirri sveit á plötunni Pottþéttar melódíur og starfaði með henni um skeið áður en hann gekk til liðs við hljómsveit af allt öðru sauðahúsi, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar en félagi hans úr ýmsum hafnfirskum hljómsveitum – Björn Thoroddsen gítarleikari mun hafa haft milligöngu um það. Með þeirri sveit fór Hjörtur m.a. í frægðarför til Sovétríkjanna. Sú saga af Hirti hefur margoft verið sögð að hann hafi hætt í sveitinni í fússi í miðri Síberíu en möguleikarnir á að húkka sér ferð heim til Íslands munu þar hafa verið afar takmarkaðir – í þessu samhengi hefur verið rætt um „frægasta hætt Íslandssögunnar“. Hjörtur starfaði áfram með Björgvini og félögum eftir að heim var komið en hann kom einnig nokkuð fram á þessum tíma með Mezzoforte. Hann lék um þetta leyti fram í nokkur skipti með Guðmundi Ingólfssyni og félögum og lék á plötu hans – Nafnakalli, þá lék hann um þær mundir einnig á plötum með Guðmundi Rúnari Lúðvíkssyni, Jarðlingum, Birni Thoroddsen, Jolla & Kóla og Gömmum en hann var meðlimur síðast töldu sveitarinnar.

Hjörtur Howser 1982

Hjörtur lék í nokkrum tónlistarsýningum með hljómsveit Björgvins Halldórssonar sem gekk um það leyti undir nafninu Stórhljómsveit Björgvins Halldórssonar, í kjölfarið hóf hann að leika með Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar sem m.a. lék mikið á Hótel Sögu. Hjörtur lék með enn fleiri sveitum á níunda áratugnum og margar þeirrar þeirra urðu þekktar eins og Grafík en hann starfaði með þeirri sveit um langa hríð og lék á plötum hennar, hér má einnig nefna ólíkar hljómsveitir eins og Bogart, Fjörorku, Næturgalana frá Venus, MX-21, Dúndur, Járnkarlana, Vini Dóra, Káta pilta og Galíleó en með sumum þessum sveitum komu lög út á plötum og safnplötum. Aukinheldur lék hann á ýmis hljómborð á plötum með flytjendum eins og HLH flokknum, Hauki Morthens, Bjarna Tryggva, Bergþóru Árnadóttur og Síðan skein sól.

Hjörtur vann nokkuð við leikhús og kvikmyndatónlist um þetta leyti og einnig fyrir sjónvarp og útvarp, hér má nefna Pappírs Pésa, Heilsubælið í Gervahverfi, Sakamálaleikhúsið (fyrir Bylgjuna) og Djáknann á Myrká en einnig átti hann í löngu samstarfi við Pál Steingrímsson í heimildamyndagerð, þá var hann einn vetur á Akureyri og starfaði þar að tónlist með Leikfélagi Akureyrar en vann einnig fyrir Borgarleikhúsið svo dæmi séu nefnd.

Tíundi áratugurinn var með svipuðu sniði hjá Hirti, hann starfaði áfram með fjölda hljómsveita og lék einnig inn á fjölmargar plötur með hinum og þessum en hóf nú í auknum mæli að koma fram sem tvíeyki við annan mann og má sjálfsagt tengja þá breytingu við þá pöbbamenningu sem var að verða til í kjölfar þess að bjór var leyfður hérlendis árið 1989. Hér má t.a.m. nefna samstarf hans við tónlistarfólk eins og Jón Rafnsson bassaleikara, Jens Hansson saxófónleikara (undir nafninu Fínt fyrir þennan pening), Eysteini Eysteinssyni trommuleikara og söngvarana Richard Scobie, Atla Geir Grétarsson (undir nafninu Kokteilpinnarnir), Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, Sigríði Guðnadóttur og Önnu Karen Kristinsdóttur, hann hélt jafnframt áfram að koma fram einn með píanóleik.

Hjörtur starfaði á þessum tíma sem fyrr segir með mörgum hljómsveitum, Íslenskur aðall, Rokkabillíband Reykjavíkur (upphaflega Svarti Kalli og albinóarnir), Óttablandin virðing, Íslendingar, Sangria, Partítertan og Hjartarbandið voru meðal þeirra en með síðast töldu sveitinni lék hann ásamt nokkrum útvöldum tónlistarmönnum í kirkjustarfi í Hafnarfirði og átti eftir að gera um langt árabil, líklega gekk þessi sama sveit undir nafninu Fjarðarbandið. Hljómborðsleik hans má jafnframt heyra á fjölmörgum útgefnum plötum á þessum síðasta áratug aldarinnar, og hér eru nefndar plötur með Rafni Jónssyni, Bubbleflies, dúettnum Tromp, Rabba og Rúnari, Jens Hanssyni, PS&CO og Herði Torfasyni en hann vann einnig að upptökum með sumum þeirra. Þá má geta þess að Hjörtur samdi og lék tónlist á tveimur slökunardiskum sem hjúkrunarfræðingurinn Sigríður Hrönn Bjarnadóttir gaf út undir nafninu Mens Sana en Hjörtur hafði gert nokkuð af því að semja tónlist s.s. fyrir leikhús og svo auðvitað kvikmyndatónlist og slíkt sem fyrr er getið. Hann samdi einnig stuðningslag fyrir FH-inga í fótboltanum svo fleiri dæmi séu nefnd.

Hjörtur Howser

Um miðjan tíunda áratuginn hófst samstarf Hjartar við Þórhall Sigurðsson (Ladda) en Hjörtur varð eins konar meðleikari hans þar sem Laddi kom fram og skemmti, þetta samstarf varði yfir tuttugu ár og hann lék einnig með þegar þeir bræður Halli og Laddi komu fram saman á nýjan leik eftir nokkurt hlé undir lok aldarinnar, og svo á fjölmörgum Ladda-sýningum sem settar voru á svið bæði fyrir og eftir aldamót, í sumum þeirra lék heil hljómsveit og var hann þar iðulega titlaður hljómsveitarstjóri.

Hjörtur starfaði töluvert í fjölmiðlum á árunum í kringum aldamótin, hann sá t.a.m. um tónlistarflutning í skemmtiþáttunum Slett úr klaufunum sem Felix Bergsson annaðist í Ríkissjónvarpinu og í kjölfarið kom hann töluvert að dagskrárgerð í útvarpi, hann starfaði t.d. á Aðalstöðinni og síðar Bylgjunni og Rás 2 einnig.

Eftir aldamótin breyttust áherslurnar töluvert í tónlistinni, Hjörtur lék minna með danshljómsveitum enda var hann þá kominn á fimmtugs aldur en hann kom þá fram með Grafík þegar sú sveit var endurvakin á nýrri öld, og einnig starfrækti hann áfram fyrrnefnt Fjarðarband sem lék í hafnfirskum messum. Hann var áfram í samstarfi við Ladda og starfaði sem tónlistarstjóri á sýningum hans en lék stöku sinnum með hljómsveitum og tónlistarfólki í tilfallandi verkefnum s.s. með Bítladrengjunum blíðu, Herberti Guðmundssyni, Sviðinni jörð og Herði Torfasyni en Hjörtur hélt ásamt Valgarði Guðjónssyni félaga sínum úr Fræbbblunum á sínum tíma utan um tónleika til heiður Herði sextugum – plata kom út með þeim tónleikum og á henni má heyra flutning Hjartar á lagi Harðar, Ég er.

Hjörtur hélt sem fyrr áfram að leika á plötum tónlistarfólks úr ýmsum áttum, hljómsveitir og tónlistarmenn eins og Sviðin jörð, Sign, Gummi Jóns og Siggi Lauf nutu m.a. spilamennsku hans og kom hann fram með einhverjum þeirra á tónleikum. Hann hélt áfram að starfa í Hafnarfjarðarkirkju með hljómsveit en var þar líka að leiða söngstarf og leika einn á píanó, orgel eða jafnvel harmonikku, hann stjórnaði einnig um skeið kór Ástjarnarkirkju. Þá hóf hann á nýrri öld að sinna tónlistarkennslu sem hann hafði ekki gert fram að því, og samdi t.a.a.m. kennsluefni í hljómborðs- og harmonikkuleik.

Þegar komið var fram á annan áratug 21. aldarinnar hóf Hjörtur smám saman að snúa sér að öðrum hugðarefnum samhliða tónlistinni en hann fór að starfa við ferðamannaiðnaðinn sem leiðsögumaður, hann hafði starfað við það um nokkurra ára skeið þegar hann varð bráðkvaddur við Gullfos vorið 2023 en hann var þá á sextugasta og öðru aldursári. Fráfall hans var óvænt og mikið áfall því hann var vinsæll og almennt vel liðinn innan tónlistarbransans á Íslandi, og þótti mikill missir af honum í íslenskri tónlist – það sést e.t.v. best á fjölbreytileika þeirrar tónlistar og tónlistarverkefna sem hann fékkst við enda starfaði hann með hundruð annarra tónlistarmanna á þeim áratugum sem hans naut við.

Efni á plötum