Afmælisbörn 7. júní 2024

Hjálmar Eyjólfsson

Í dag eru afmælisbörn á skrá Glatkistunnar þrjú talsins en þau eru eftirfarandi:

Tvíburabræðurnir Kristinn og Guðlaugur Júníussynir eru fjörutíu og átta ára gamlir en þeir eru eins og kunnugt er af mikilli tónlistarfjölskyldu. Þeir bræður hafa mikið unnið saman í tónlist sinni, voru í hljómsveitum eins og Tjalz Gissur, Vinyl (Vínyll), Lace, Jet Black Joe (undir það síðasta), Jetz og Music zoo en einnig hafa starfað starfað í öðrum sveitum í sitt hvoru lagi. Þeir bræður hafa ekki verið áberandi í íslenskri tónlist síðustu árin.

Hér er svo einnig nefndur harmonikkuleikarinn Hjálmar Eyjólfsson (fæddur 1911) úr Hafnarfirði en hann lék á dansleikjum á heimaslóðum og einnig úti á landsbyggðinni við miklar vinsældir. Hann var einn af stofnendum Harmonikufélags Reykjavíkur (hins fyrra) og var virkur félagi þar um árabil. Hjálmar lést árið 1990.

Vissir þú að lagið Hjálpum þeim fór beint á topp Vinsældarlista Rásar 2 þegar það kom út í desember 1985 og var á listanum fram í mars 1986?