Hljóðfærasveit Reynis Gíslasonar (1918-19)

Píanóleikarinn Reynir Gíslason var einn af frumkvöðlum íslenskrar lúðrasveitasögu en hann stjórnaði t.a.m. bæði lúðrasveitunum Hörpu og Gígju sem voru meðal fyrstu þeirrar tegundar á öðrum áratug 20. aldarinnar. Svo virðist sem Reynir hafi einnig verið með litla hljómsveit eða svokallaða Hljóðfærasveit Reynis Gíslasonar veturinn 1918 til 19 sem lék m.a. á Landinu (Hótel Íslandi hinu fyrra) um haustið, sú sveit var fjögurra manna en engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu hana með Reyni. Í mars 1919 lék átta manna hljóðfæraflokkur undir stjórn Reynis á dansleik templara í Iðnaðarmannahúsinu en það var líkast til lúðrasveitin Harpa, sú sveit hafði einnig leikið á hátíð sem blásið var til í tilefni fullveldis Íslendinga þann 1. desember.

Fréttaflutningur af tónlistar- og menningarmálum var reyndar nokkuð stopull þennan vetur því spænska veikin setti þar strik í reikninginn og því eru heimildir fáar um þessa minni hljómsveit Reynis.