Hljóðfærasveit Stefáns Sölvasonar (1924-36)

Upplýsingar um hljómsveit eða hljómsveitir sem Vestur-Íslendingurinn Stefán Sölvason starfrækti á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar í Winnipeg í Kanada eru af afar skornum skammti en sveitirnar (sem voru líklega fleiri en ein) störfuðu ýmist undir nafninu Hljóðfærasveit Stefáns Sölvasonar eða Hljóðfæraflokkur Stefáns Sölvasonar.

Fyrstu heimildir um hljómsveit Stefáns er að finna frá haustinu 1924 en þá virðist sveitin var starfandi innan Sunnudagsskóla Fyrsta lútherska safnaðarins í Winnipeg og svo virðist enn vera tveimur árum síðar. Árið 1927 var sveit í hans nafni meðal keppenda í hljómlistarkeppni Manitoba fylkis og ári síðar vann hún til verðlauna í þeirri sömu keppni, hér er reiknað með að sveitin hafi verið að mestu skipað Íslendingum enda lék hún að því er virðist mest á skemmtunum, dansleikjum og öðrum uppákomum meðal Íslendinga í Winnipeg. Engar upplýsingar er að finna um stærð sveitarinnar eða hljóðfæraskipan en árið 1928 inniheldur hún bæði strengjaleikara og blásara auk „trumbuleikara“.

Þessi hljómsveit (eða aðrar sveitir undir stjórn Stefáns) starfaði næstu árin og heimildir eru fyrir að hún hafi verið að koma fram og leika mestmegnis fyrir dansi, allt til 1936.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um hljómsveitir Stefáns – og reyndar einnig Stefán sjálfan því nafn hans er ekki að finna í Íslendingabók.