Amen og halelújá!

Amen og halelújá!
(Lag / texti: Jón Múli Árnason / Jónas Árnason)

Að andinn sé ekki eilífur
er eintómt blaður og snakk
og þeir sem gapa og geipa um slíkt
eru grefils rakkarapakk.

Við trúum allir á andans mátt
og allir fögnum við því
að þegar lífi okkar lýkur hér
við lifnum allir á ný.

Þá líður sálin um loftin blá
og líkist vængbreiðum svan
og upp hún leitar í æðri heim
og á annað tilveruplan.

Þar leiðast englar í ljúfri ró
um laufguð skóganna göng
og fljúga stundum í flokkum upp
með fjaðraþyt og með söng.

Þar þekkist ekki neitt sukk né svall
né svínarí eins og hér;
og allar rætast þar óskir þær
sem menn ala í brjóstinu á sér.

Þar standa veglegar verksmiðjur
og verka aflann úr sjó
og allt er kaupgjald þar kristilegt
og þar kapítalið er nóg.

Og kirkjur gnæfa þar knarreistar
á hverjum einasta hól
og í þeim messað er oft á dag
en ekki bara um jól.

Og andans blessun þar fólkið fær
sem ferskt vatn beint heim til sín
því ekkert kemur úr krönunum
nema klára messuvín.

Já, þangað, sál mín, þú seinna meir
munt svífa flugfjörðum á
í dýrð og fögnuði upp, upp, upp.
Amen og halelújá!

[engar upplýsingar um lagið á plötum]