Blesi

Blesi
(Lag / texti: Snorri Evertsson / Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson)

Er dag fer loksins að lengja
þá lyftist brúnin á mér.
Þá fer ég að huga að beislinu og hnakknum,
í hesthúsið rakleiðis fer.

Ég leysi Blesa af básnum,
beisla´ann og teymi af stað.
Svo legg ég hnakkinn á hrygginn á klárnum,
og herði gjörðina að.

Í ístaðið svo ég tylli tánum,
svo takist sveiflan með stæl.
En Blesi líður engum bjánum
að brúka sig eins og þræl.
Svo það næsta sem ég veit að hesthúshlaðið
er hart og rennandi vott.
En ekki skal ég fortaka að á klárnum sjáist glott.

Blesi minn, – klárinn minn.
Blesi minn, – Blesi klárinn minn.

Þvílík þrjóska og hrekkir,
en þrjóskur líka er ég.
Öskrandi stekk ég svo aftur á klárinn,
en allt fer á sama veg.

Þá skal friðargjörð framin,
ég fer að Blesa með gát.
Nú er hann alveg hreint stilltur og staður
þá stend ég bara mát.

Klárinn byrjar á að fara fetið,
en ferðina eykur hann senn.
Enginn fær á slíkum ofsa setið,
svo upphefst sagan enn.
Það næsta sem ég veit að hesthúshlaðið
er hart og rennandi vott.
En nú er ljóst, að hrossin geta glott.

Blesi minn, -klárinn minn.
Blesi minn, – Blesi klárinn minn.

[á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar ásamt fjölda góðra gesta – 44 íslensk alþýðu dans- og dægurlög]