Borgarfjörður

Borgarfjörður
(Lag / texti: Sigþrúður Sigurðardóttir / Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir)

Borgarfjörður, kæra byggðin mín
bjart er oft um fjöllin þín.
Sumarfegurðin í faðmi þér
fast er greipt í hjarta mér.
þú átt minninga- og sögusjóð,
sögn um hulduklett og álfasóð,
kyrrar, ljósar nætur, kveldin hljóð,
kátra fugla morgunljóð.

Þegar bliki slær á bláan sæ
bárur hjala rótt í mildum blæ,
sólin hnígur vart í sævar djúp,
sveipar allt í töfrahjúp,
fegri sýn ég aldrei augum leit,
en sú litadýrð um fjörð og sveit.
Við þinn fjallahring og breiða byggð,
börn þín festa ævitryggð.

Þú átt oft á tíðum fanna föng,
frost og hríðardægur löng.
Virðist langt að bíða vorsins þá,
vetur leggur allt í dá.
Íssins breiða hylur hafið blátt,
hrannast kólguský um loftið grátt.
Margur treysta þarf á þor og mátt,
þar til næst við Norðra sátt.

Loks er vorið faðmar völl og sæ
verður létt um spor á hverjum bæ,
smáar bárur gæla Björgin við,
bát er siglt á fiskimið.
Þegar brosir sól við blómareit
betri, fegri slóðir enginn veit.
Kæra gamla bernskubyggðin mín,
blessist ætið minning þín.

Hvert sem barna þinna beinist för
bíða misjöfn ævikjör.
Æskuminningu sem aldrei þver
eiga þau í hjarta sér,
um hið litla blóm á lágum hól,
lamb í túni, kletta þinna skjól,
hlýja morgunstund er hani gól,
hátt og snjallt við árdagssól.

Þá við bæjarlæk og bláa tjörn
bátum fleyttu stundum lítil börn
og í fjöruborði fundu þar
fagrar, dýrar gersemar.
Aldinn hugur þangað feginn flýr,
fangar þessi gömlu ævintýr.
Lokahvíldin verður vær og hlý,
vinarfaðmi þínum í.

[af plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar – Austfirskir staksteinar III]