Ég veit mitt rjúkandi ráð
(Lag / texti: Jón Múli Árnason / Jónas Árnason)
Líf mitt, það er þyrnum stráð;
sí-sí og æ
sektir ég fæ;
bið samt aldrei neinn um náð.
Ég veit mitt rjúkandi ráð.
Frelsisstríð mitt hef ég háð
fjármálum í
æ-æ og sí,
frægðarverk á skjöld minn skráð.
Ég veit mitt rjúkandi ráð.
Vanti þig slægð,
viðskiptamennt,
getur þú í
gjaldþroti lent,
innheimtulýð
orðið að bráð
án þess þú vitir þitt rjúkandi ráð.
Löghlýðnin er viðsjárverð
og voðaleg ef að er gáð.
Hún getur gert þig að öreiga án þess þú
vitir þitt rjúkandi ráð.
Nú ber þér að drýgja dáð.
Kofinn í nótt
fuðra skal fljótt
assúransins upp á náð.
Veistu þitt rjúkandi ráð?
Kvíði engu, yðar náð.
Heimili mitt,
fagurt og frítt,
brátt skal nú í burtu máð.
Ég veit mitt rjúkandi ráð.
Vel er mér ljóst,
vinur minn kær,
að þú ert mjög
íkveikjufær.
Víst er að mér
var aldrei láð
að ég ei vissi mitt rjúkandi ráð.
Gömul fasteign, hrum og hrjáð
háu verði getur náð
ef maður hana gegn eldsvoða tryggir og
veit svo sitt rjúkandi ráð.
[engar upplýsingar um lagið á plötum]














































