Fyrr og nú
(Lag / texti: Bragi Gunnlaugsson / Sólrún Eiríksdóttir)
Manstu okkar fornu fögru kynni,
þá fögur ríkti sumarnóttin heið.
Við dönsuðum, þín dvaldi hönd í minni
og dýrðleg var sú stund, en fljótt hún leið.
Því dagur rann þá dansfólk burtu flytur,
á döggvott grasið sólin geislum sló,
en síðan hefur komið kaldur vetur,
þú kemur þegar vorið laufgar skóg.
Mig dreymir um þig daga og langar nætur,
í draumum mínum birtist myndin þín,
því ástin festi órjúfandi rætur
í okkar hjörtum kæra vina mín.
Ég minnist þín í vöku og værum blundi,
ég veit að hjá mér dvelur hugur þinn.
Þá rökkur-kyrrð er yfir sveit og sundi
í sælum draum ég nálægð þína finn.
Nú brosir lítill bær í hvammi grænum,
á bakvið hann er fögur skógarhlíð,
þrastarsöngvar óma í aftanblænum,
undir niðar lindin mild og þýð.
Á kvöldin þegar þrautin dags er unnin
og þreyttur kem ég heim þú fagnar mér
og kæra mín ég kyssi þig á munninn,
í kvöldsins friði bý ég sæll hjá þér.
[m.a. á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar – Austfirskir staksteinar II]














































