Kátt er um jólin
(Lag / texti: Jón Múli Árnason / Jónas Árnason)
Kátt er um jólin, koma þau senn;
kætast þá allir góðir menn.
Sannleikur gamall sannast á ný:
sælast er heimi þessum í
börnin að gleðja, bjarthærð og smá,
(einkum ef hægt er að hagnast því á).
Heimska og andlegan eyðileik
ýmsir hér nefna heiðarleik.
En af slíkum elliglöpunum
orsakast mest af töpunum.
Í verslunarlífi og viðskiptum
virðist þörf á siðskiptum.
Sæt þykja aldin sunnanífrá
Sikilý, Fransi og Spáníá.
En hvað eru eldrauðu eplin spönsk,
ítalskar perur, vínber frönsk
móts við þann íslenska ávöxt sem ber
ást þeirri vitni sem ég hef á þér.
Viljirðu komast í heiminum hátt
hafa þú verður númer lágt.
Opnar þá standa allar á gátt
auðnunnar dyr í hverri átt.
Veraldargengið vaxandi fer
því næst sem núllinu númer þitt er.
[m.a. á plötunni Fjórtán Fóstbræður – Fjórtán Fóstbræður]














































