Kveldóður
(Lag og texti: Stefán Bragason)
Komið er kveld
kankvísir skuggar um lautir stökkva,
aftansins eld
eru á börðum að deyfa og slökkva.
Hlývindur hlær
hríslurnar bærir og stráin strýkur.
Nóttin er nær,
nafnlausum degi senn lýkur.
Fögnuð og frið
flytur sú nótt inn í sálu mína,
ljáðu mér lið,
lífsblómin skulum við saman tína.
Stór er sú stund,
stefnu ég breyti í lífi mínu.
Laufgum í lund
léttu af hjartanu þínu.
Ástin mín ein
unaðar skulum við saman njóta,
brautin er bein
blessun vornætur við munum hljóta.
Titrandi tár
tindrar sem stjarna á þínum hvarmi.
Ókomin ár
ólgu þér vekja í barmi.
[m.a. á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar ásamt fjölda góðra gesta – 44 íslensk alþýðu dans- og dægurlög]














































