Ljúfsárt lokalag

Ljúfsárt lokalag
(Lag / texti: Gunnar L. Hjálmarsson / Ragnheiður Eiríksdóttir)

Líður lækur um grýttan svörð,
gegnum neongræn mosabörð
lóa rýfur kyrrðina,
hún er að dásama dýrðina,
upp úr grjóthrúgu kíkir blóm,
veitir flugunum ríkidóm.
Svona er nú náttúran
Þetta‘ er það eina sem hún kann.

Þetta er ljúfsárt lokalag
um lífið sem er stutt,
mikilvægt er að gleyma því ekki
þetta er ljúfsárt lokalag
um lífið – þú átt eitt,
já bara eitt, þú ert í einriti.

Á Tunglinu er ekkert hljóð,
engar sögur og engin ljóð,
menn það fóru að rannsaka
en hættu því vegna leiðinda,
jörðin er besti staðurinn,
elsku hnötturinn minn og þinn,
við verðum að passa hann
og hafa‘ hann alltaf fallegan.

Þetta er ljúfsárt lokalag
um lífið sem er stutt,
mikilvægt er að gleyma því ekki,
þetta er ljúfsárt lokalag
um lífið – þú átt eitt,
já bara eitt, þú ert í einriti.

[af plötunni Dr. Gunni og vinir hans – Alheimurinn]