Óður til hreystinnar

Óður til hreystinnar
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
 
Í sveit einni ágætri austanlands var
einvalalið forðum tíð.
Af afli og hreysti af öllum þó bar
stórbóndinn Stefán í Hlíð.

Frá plássi í grenndinni sóttu menn sjó
og sigldu yfir boða og sker.
En kaldastur allra og kræfastur þó
var skipstjórinn Skúli á Ver.

Í minnum sá dansleikur enn í dag er
og eflaust mun verða um hríð
er slógust þeir skipstjórinn Skúli á Ver
og stórbóndinn Stefán í Hlíð.

Já, Skúli hann greiddi þar karskur og knár
kjaftshöggin miðlungi blíð.
Og óðar en varði var bólginn og blár
stórbóndinn Stefán í Hlíð.

En Stefán sín hefndi með hnefunum þeim
sem harðari voru en gler.
Þar glataði út úr sér tanngómum tveim
skipstjórinn Skúli á Ver.

Og áfram þeir héldu í erg og í gríð
og aldrei þeir kveinkuðu sér
því  hraustur var stórbóndinn Stefán í Hlíð
og skipstjórinn Skúli á Ver.

Og loks þegar hófst yfir hólma og sker
úr hafinu dagstjarnan blíð
í roti lá skipstjórinn Skúli á Ver
og stórbóndinn Stefán í Hlíð.

Ég hylli með söknuðu hreystinnar tíð
því heimurinn versnandi fer
og dauður er stórbóndinn Stefán í Hlíð
og skipstjórinn Skúli á Ver.

[af plötunni Þrjú á palli – Þrjú á palli]