Síðasti Skotaprins
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Fram þar sem hamast við hreggblásna strönd
holskeflur úthafsins
hástöfnuð skeið milli skerjanna ber
Skotanna unga prins.
Gnestur í siglu, gnestur í rá,
gnauðar hvert reipi og stag.
Kolgrænar öldur við kinnunginn
kveða sinn rammaslag.
Hann sem til konungdóms kallaður var
kvatt hefur sína þjóð.
Lyngið í Hálöndum lifrautt er
líkt eins og stroknað blóð.
Þar sem hans vopnfáa, vaska sveit
varðist til hinsta manns
kæfður í enskum kanónureyk
var kóngríkisdraumur hans.
Utanfrá ströndum Inverness
upphrannast kólguský
yfir hið stráfellda einvalalið
inni við Drummossie.
Hann sem um land sitt bjarmanum brá
blysberi frelsisins
sigraður stefnir á sollinn mar,
síðasti Skotaprins.
[m.a. á plötunni Þrjú á palli – Við höldum til hafs á ný]














































