Sigling á Lagarfljóti

Sigling á Lagarfljóti
(Lag / texti: Reynir E. Kjerúlf / Sigrún Björgvinsdóttir)

Það er hlýr og fagur dýrðardagur,
döggvot jörðin brosir hlýju sumrinu mót.
Fljótsdalshérað sveipað inn í sindrandi grænan skóg,
sólgullið skín Lagarfljót.
Og við siglum tvö í sunnanblænum,
svona getur lífið verið elskendum gott.
Í ljósu hári leikur blærinn, ljómi úr augum skín,
loks hefur ræst óskin mín.

Þannig getur orðið okkar ævi,
eins og draumasigling yfir glitrandi unn.
Reynum bæði að halda í þessa hamingjuljúfu stund,
hugsa og þrá nýjan fund.
Blikar báruna á
bjart er yfir að sjá,
fleyið okkar það líður landi grænu frá.

Svífum nú saman,
sæl, um þessa skínandi slóð,
gleði, bros og gaman,
greypt í minninga sjóð, greypt í minninga sjóð,
greypt í minninga sjóð.

[m.a. á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar ásamt fjölda góðra gesta – 44 íslensk alþýðu dans- og dægurlög]