Sígur að kveldi
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Það er sumar og sígur að kveldi;
það er sumar og veðrið er gott;
og í eikinni íkorninn kennir
sínum ungum að sperra sitt skott.
En ein sit ég úti á steini
og angur í hjartanu ber
því að gleymt aldrei get ég þeim pilti
sem þeir gripu og drógu frá mér.
Í laufkrónu lævirkinn situr
og lundurinn kliðar af söng
og hindin með hornin sín prúðu
stekkur hnarreist um skógarins göng.
En ein sit ég úti á steini
og aldrei úr huga mér fer
hinn bjarteygði, blíði og góði
sem þeir bundu og drógu frá mér.
Svo húmar og hóglega nóttin
bindur himninum stjarnljósa krans;
og á meðan um merlaðan sæinn
dregur máninn sinn slóða til lands.
En ein sit ég úti á steini
og óttinn minn hjarta sker
er ég hugsa um dáðrakka drenginn
sem þeir drógu í burtu frá mér.
Og stefnumót elskendur eiga
útá engjum í náttmildum þey;
og þau læðast með læknum og hverfa
bak við lanir með ilmandi hey.
En ein sit ég úti á steini
og ástin í brjósti mér
að eilífu helguð er honum
sem þeir höfðu á burtu með sér.
[m.a. á plötunni Þrjú á palli – … eitt sumar á landinu bláa]














































