Sófinn gleypti mömmu og pabba

Sófinn gleypti mömmu og pabba
(Lag og texti: Gunnar L. Hjálmarsson)

Mamma og pabbi flýta sér að hátta mig,
hlamma sér svo fyrir framan sjónvarpið
með fullan flakkara,
þau horfa á þættina,
sjá litskrúðugar leynilöggur þefa uppi glæpona.
Sjá fjölskyldu í Nebraska,
glápa á sjónvarpið og borða borgara,
horfa á fræðsluþátt um mús
og fólk innrétta hús
og eitthvað fólk í söngvakeppni syngja slappan blús.

En svo eitt kvöldið þegar ég var næstum sofnaður þá gerðist eitt alveg rosalega furðulegt:
Sófinn gleypti mömmu og pabba,
þau voru búin að horfa á sjónvarpið í heila öld.
Sófinn gleypti mömmu og pabba,
þau gerðu ekkert annað en að horfa á skjáinn köld
bakvið hnausþykk gluggatjöld,
kvöld eftir kvöld,
já, kvöld eftir kvöld eftir kvöld.

Ég leita að þeim bakvið sófapúðana,
ég finn þau hvergi sama hvernig ég leita.
Þetta er alveg hræðilegt,
ég veit ei hvað ég get gert
en þá birtast þau í sjónvarpinu, er það eðlilegt?
Þau eru gestir í spjallþætti
og þau stjórna lottóútdrætti,
þau birtast næst í teiknimynd,
eru elt af beinagrind,
hún gólar og þau hlaupa dauðhrædd upp á fjallstind.

Sófinn gleypti mömmu og pabba,
þau voru búin að horfa á sjónvarpið í heila öld.
Sófinn gleypti mömmu og pabba,
þau gerðu ekkert annað en að horfa á skjáinn köld
bakvið hnausþykk gluggatjöld,
kvöld eftir kvöld,
já, kvöld eftir kvöld eftir kvöld.

Úff þetta er alveg hræðilegt, nú er beinagrindin alveg að ná þeim, þau eru alveg dauðhrædd og
eru aveg að fara að detta niður af fjallinu… Gunni minn, Gunni minn… vaknaðu! Vaknaðu!
Þig er bara að dreyma!
Hjúkkitt, þetta var þá martröð,
mamma og pabbi eru hérna í mínu herbergi.
Hjúkk itt, þetta var þá martröð
og sófinn frammi í stofunni og slökkt á sjónvarpi,
vetrarnóttin ísköld,
bakvið hnausþykk gluggatjöld,
ég fæ að sofa á milli í kvöld.

[af plötunni Dr. Gunni og vinir hans – Alheimurinn]