Svart silki
(Lag / texti: Steinar Gunnarsson / Bjarni Tryggvason)
Þegar augun opnast er allt svart
en með hörundinu finnurðu
að þú ert ekki ein
og innra með þér er allt bjart
og hver taug í þér opnar sig
mót snertinganna heim.
Þú ert snert af hatri eða ást
og í veröld þinni er myrkrið
ýmist kalt eða heitt.
Tveir skuggar um skynjun þína slást
þegar veruleiki og draumar
renna saman í eitt.
Svart silki, yfir augum þínum er,
engin sýn, aðeins tilfinning sem dvín.
Svart silki, fellur augum þínum frá,
ekkert svar, engin þar,
aðeins augnablik sem sveik
og eftir situr tálsýn,
tveir skuggar sem aldrei brugðu á leik.
Innra með þér kviknar lítið ljós
sem lýsir þína veröld
þar sem þú ert ekki ein.
Þú alsæl opnast eins og rós
sem aldrei þurfti að lifa
undir skuggunum tveim.
[af plötunni Súellen – Ferð án enda]














































