Þá og nú
(Lag / texti: Óðinn G. Þórarinsson / Stefán Bragason)
Æskan að baki,
einn nú ég vaki,
fer yfir farinn veg.
Oft var hún yndisleg, þeim
er glaðst þá gat.
Árin þó liðu,
annir biðu,
tíminn flaug mér frá.
Fyrst nú má
leggja á lífshlaupið mat.
Manstu þá tíð
ung er við gengum glöð.
Ástfangið par
alsælt þá var
og atlot blíð.
Vornótt leið skjótt,
sólin hófst úr hafi.
Bærðist vart blað á grein,
bergnumin stóðum ein.
Ég man þá nótt.
Hauströkkrið hnígur,
hnjúka á sígur,
lít ég hér liðinn dag.
Allt er með öðrum brag, nú,
en víst þá var.
Hrím er í hlíðum,
hljómi stríðum
valda sjávar sog.
Sérhvern vog
skyggir skýjanna far.
Manstu þá tíð
ung er við gengum glöð.
Ástfangið par
alsælt þá var
og atlot blíð.
Vornótt leið skjótt,
Sólin hófst úr hafi.
Bærðist vart blað á grein,
bergnumin stóðum ein.
Ég man þá nótt.
[m.a. á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar – Þá og nú: Lög Óðins G. Þórarinssonar]














































