Það er ekkert unaðslegra
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Það er ekkert unaðslegra
en að iðka krikketleik
þegar blessuð sólin brosir
gegnum breskan kolareyk
sem dregur dularmyndir
yfir dali, fjöll og holt.
Slíkt upp í okkur kyndir
okkar enska þjóðarstolt.
Enskar krásir helst vér kjósum,
af þeim kraftur vex og þor
og af svörtum HP-sósum
sprettur sálarstyrkur vor.
Og mjög er marmelaði
fyrir meltinguna hollt.
En best af öllu er beikon
okkar breska þjóðarstolt.
Og við elskum okkar konur
samkvæmt enskum skikk og sið;
og í þeirra ástarörmum
brestur aldrei jafnvægið.
Þar hvorki heitt né kalt er,
aðeins hæfilega volgt.
Já, betra en annað allt er
okkar enska þjóðarstolt.
Okkar gleði aldrei gróf er
heldur göfug, hrein og fín
eins og björgin björt hjá Dover
þegar bleikur máninn skín.
Og þó að ýmsir okkar
hafi í sig miklu hvolft
við verðum aldrei útúr;
það er okkar þjóðarstolt.
Okkar hugsjón hæst og venja
er að heyja réttlátt stríð
jafnt á Kýpur sem í Kenja
móti kenjafullum lýð.
Og þrjóta þar við hengjum
eftir þörfum holt og bolt
svo enginn efast lengur
um vort enska þjóðarstolt.
Yes, við áttum ótal hetjur
þar sem unnu fjarlæg lönd
og við hengdum á þær orður
jafnt í axla- og sokkabönd.
Þó enska ljónið okkar
hafi ekki fagran skolt
það er samt ljónið okkar,
okkar enska þjóðarstolt.
[engar upplýsingar um lagið á plötum]














































