Því spyrðu mig?
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Því spyrðu mig hvort ég ætli ekki senn
að yrkja minn fagnaðarbrag
um mannanna göfgi og mannanna reisn
og mannanna bræðralag?
Því spyrðu mig hversu líki mér það
að litast um heiminn í dag?
Spyrðu heldur þann sem almáttugur er,
spyrðu þann sem almáttugur er.
Því spyrðu mig um það ágæta fólk
sem allsnægtum fagna má
og þykist ei vita um þann langþjáða lýð
sem lagst hefur glugga þess á?
Því spyrðu mig hve mörg augu það þarf
og eyru að heyra og sjá?
Spyrðu heldur þann sem almáttugur er,
spyrðu þann sem almáttugur er.
Því spyrðu mig um það blökkumanns barn
sem bölvun í tannfé hlaut
og gengur að sofa sérhvert kvöld
með sultinn að rekkjunaut?
Því spyrðu mig: Hvenær afleysist það
frá eymd sinni, kvöl sinni og þraut?
Spyrðu heldur þann sem almáttugur er,
spyrðu þann sem almáttugur er.
Því spyrðu mig um þá hvítþvegnu hönd
sem herðist að smælingjans kverk
og flytur þann boðskap að margfalt morð
sé margfalt réttlætisverk?
Því spyrðu mig: Hví er ein þjóð svo snauð
en önnur svo voldug og sterk?
Spyrðu heldur þann sem almáttugur er,
spyrðu þann sem almáttugur er.
Því spyrðu mig: Hvenær endar það stríð
sem eldi um skógana slær
og eitrinu spýr um þau akurlönd
þar sem iðgræn hrísplantan grær?
Því spyrðu mig hvað sá unglingur hét
sem einmana féll þar í gær?
Spyrðu heldur þann sem almáttugur er,
spyrðu þann sem almáttugur er.
Því spyrðu mig hvort ég ætli ekki senn
að yrkja minn fagnaðarbrag
um mannanna göfgi og mannanna reisn
og mannanna bræðralag?
Því spyrðu mig hversu líki mér það
að litast um heiminn í dag?
Spyrðu heldur þann sem almáttugur er,
spyrðu þann sem almáttugur er.
[engar upplýsingar um lagið á plötum]