Þvílík er ástin
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Ég einu sinni ástar naut
og undi sæl í þeirri trú
að slíkri ást gæti ekkert breytt
en um það veit ég betur nú.
Því ástin lík er eldi þeim
sem í arni brennur glatt um kvöld;
þar eftir liggur um óttubil
ein öskuhrúga grá og köld.
Og einu blómi er ástin lík
sem íðilfagurt hreykir sér
í sumarblæ undir blíðri sól
en bliknar þegar hausta fer.
Og lík er ástin læknum þeim
sem liðast blár um grænan mó;
sem kemur vetur, þá hverfur hann
í klakadróma undir snjó.
Ég einu sinni ástar naut
og undi sæl í þeirri trú
að þvílík ástin yrði alltaf söm
en um það veit ég betur nú.
[m.a. á plötunni Kristjana Arngrímsdóttir – Þvílík er ástin]














































