Við mættumst til að kveðjast
(Lag / texti: Óðinn G. Þórarinsson / Magnús Pétursson)
Bjart er yfir löngu liðnum kvöldum,
léttur ilmblær hljótt um dalinn rann.
Hlíðar klæddust húmsins fölvu tjöldum,
hinsti geisli fjærstu tinda brann.
Tvö við undum engin gerðist saga,
ilspor mást svo létt um troðinn veg.
Samt ég man það, man það alla daga,
við mættumst til að kveðjast þú og ég.
Sjáir þú á „gleym mér ei” glitra
gullið daggartár við morgunskin.
Og í þínu hjarta hljóðir titra
hljómar sem að minna á fornan vin.
Og er máni á mildu sumarkveldi
merlar geislarúnum vog og sund.
Blik af mærum minninganna eldi
muni geyma næstum gleymdan fund.
[m.a. á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar – Þá og nú: Lög Óðins G. Þórarinssonar]














































