Viðræður veiklaðs læknis og veiklaðrar stúlku

Viðræður veiklaðs læknis og veiklaðrar stúlku
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)

Fýsi þig e.t.v. eitthvað að heyra
um mig þá vil ég það segja þér fyrst
að sæmd mín er glötuð og siðferðisþrekið
og svo er ég forfallinn alkóhólist.

Ó, Guðs er það ráðstöfun, Guðs er það vilji,
Guðs er það forsjón að við höfum hist!
Þig vil ég eiga og þér vil ég gefast
þó þú sért forfallinn alkóhólist.

Ei er ég hugaður, hraustur né sterkur;
heilsa mín jafnt og þétt versnandi fer,
ristillinn bólginn og bólginn er líka
blöðruhálskirtilinn gamli í mér.

Ó, ef þú gefur þá ást er ég þrái,
ást þá sem hamingju veitt getur mér,
ekkert mig varðar um afl þitt né hreysti,
ekkert mig varðar um kirtlana í þér.

Til þess að byggja mér hýbýli háreist
hefur mig skort bæði dugnað og táp.
Í kjallaraíbúð ég þurft hef að þrauka;
þó á ég dálítinn meðalaskáp.

Ó, herm þú mér, ljúfi og hjartkæri vinur,
hvað þú vilt gera ef sækja mig á
óyndisköst eða urgur á taugum
ofan frá hvirfli og niður í tá.

Þú skalt ei óttast að lífið þér leiðist;
léttlyndispillur hjá mér skaltu fá.
Og þegar saman við sitjum á kvöldin
svefnskömmtum sterkum ég mata þig á.

Í kjallaraíbúð í kærleika hreinum
kveðjum við líf það sem böl okkur var.
Blómin þar anga og sorgirnar sofa;
sæl verður elskendum fátæktin þar.

[engar upplýsingar um lagið á plötum]